Skoðun

Svona velur þú þér for­seta í dag

Kolbeinn Karl Kristinsson skrifar

Nú kýs þjóðin sér forseta og ég þykist vita að mörg ykkar séu enn á báðum áttum með hvern frambjóðendanna þið ætlið að kjósa. Mörg þeirra sem eru í framboði eru jú frambærileg og hafa átt misjafna spretti. En hvernig er þá best að velja sér forseta? Ég hef hugsað mikið um þetta og ég held að ég viti hvernig. Ég ætla að renna aðeins yfir kostina í stöðunni og hvernig best er að komast að niðurstöðu.

Kjósa taktískt?

Ein leið sem sum virðast ætla að fara er að kjósa „taktískt” af því að þau telja að sinn frambjóðandi muni ekki vinna og þar af leiðandi sé þeirra atkvæði kastað á glæ. Þetta er í raun algjör vitleysa því lýðræði á aldrei að snúast um að kjósa þann frambjóðanda sem þér finnst líklegastur til að vinna, það fer gegn öllu sem lýðræði snýst um. Ímyndaðu þér ef einhverjir kjósendur hefðu ekki kosið Vigdísi árið 1980 af því að það væri taktískara að kjósa einhvern annan frambjóðanda. Svo mjótt var á munum það árið að ef hún hefði tapað nokkrum atkvæðum þá hefði hún aldrei orðið forseti. Sú umræða kom sem betur fer ekki upp og þess vegna erum við svo heppin að hafa fengið Vigdísi.

Ímyndaðu þér líka að hugsa til baka og vita að sá frambjóðandi sem vann hafi gert það vegna þess að þú og einhverjir aðrir kjósendur kusuð taktískt en ekki þann frambjóðanda sem þið vilduð í raun og veru. Gætirðu í raun hugsað til baka með stolti yfir þátttöku þinni í þeim sögulega viðburði sem forsetakosningar eru? Æji kommon, þú veist að þú hefðir alltaf óbragð í munni.

Niðurstaðan er að þú átt aldrei kjósa taktískt, þá fyrst ertu að kasta atkvæði þínu á glæ.

Kjósa gegn Katrínu?

Önnur útfærsla af hinni taktísku leið kemur frá þeim armi sem vill fyrir alla muni ekki að Katrín Jakobsdóttir vinni. Hér gilda í raun nákvæmlega sömu rök. Ertu í alvörunni til í að selja atkvæði þitt einhverjum frambjóðanda sem er ekki þitt uppáhald til þess eins að tryggja að einhver frambjóðandi sem þú vilt ekki vinni ekki? Það er líklega besta leiðin til að enginn verði ánægður.

Ef þú vilt ekki pólitíkus sem forseta þá ferð þú ekki í einhvern pólitískan leik til að svo verði ekki, þá fyrst eru í ruglinu.

Niðurstaðan er að þú átt ekki að kjósa gegn neinum frambjóðanda, forsetakosningar eru meðmælaveisla en ekki mótmælaaðgerðir. Ef þú vilt ekki Katrínu þá kýstu bara ekki Katrínu. Hinir kjósa svo sína frambjóðendur og við spyrjum svo að leikslokum.

Kjósa með hjartanu?

Forsetakosningar eru lýðræðisveisla þar sem hver og einn kjósandi fær að setja sitt atkvæði á þann aðila sem hann telur að verði besti fyrirliðinn inn á við og sómi okkar, sverð og skjöldur út á við. Auðvitað áttu því alltaf að kjósa með hjartanu. Forsetaembættið er í grunninn tilfinningalegt embætti, þetta er eftir allt saman sá fulltrúi okkar sem við treystum til að peppa okkur saman og vera talsmaður okkar út á við.

En hvern er þá best að kjósa?

Nú þegar við höfum sameiginlega komist að þeirri niðurstöðu að eina vitið sé að kjósa með hjartanu og með allt ofangreint í huga þá þarftu að taka tvennt inn í jöfnuna til að taka lokaákvörðun:

Fyrirliðinn inn á við: Fyrirliðinn sem peppar okkur og sameinar er alltaf sá sem talar til þín á mannamáli, umbúðalaust en um leið einlægt frá hjartanu. Hver er sá aðili í hópnum?

Sómi okkar, sverð og skjöldur út á við: Talsmaður okkar út á við þarf að mínu mati fyrst og fremst að hafa trú á gildum okkar og þeim málefnum sem við sem þjóð brennum fyrir og geta talað fyrir þeim út á við. Hvaða gildi eru það? Heiðarleiki myndu sum segja, náttúruvernd myndu mörg segja og kannski friðarmál? Allt góð gildi sem við hljótum flest að vera sammála um. Ég horfi líka mikið til þess sem gerir okkur einstök eins og bókmenntaarfurinn og hvað við erum listræn þjóð. Hver er aðilinn í hópnum sem getur ekki bara talað fyrir þessum málum heldur brennur fyrir þeim?

Ef ég horfi yfir hópinn þá sé ég vissulega marga frambærilega frambjóðendur. En eins og við höfum farið yfir þá er ekki nóg að vera frambærilegur frambjóðandi. Stór hluti frambjóðendanna ætti frekar heima á Alþingi og virðast þannig misskilja embættið, annar stór hluti frambjóðendanna virðist tala mikið í endurteknum frösum og skortir því þá einlægu hlið sem ég vil sjá í forseta.

Hvert okkar þarf að ákveða fyrir sig hvaða frambjóðandi það er sem talar fyrir þeim gildum sem við viljum standa fyrir og er rétti aðilinn til að peppa okkur inn á við. Ef ég persónulega horfi yfir allt ofangreint; hver talar á mannamáli en ekki í frösum, hver er einlægur inn að beini, hver talar fyrir gildum sem ég tengi við íslensku þjóðina og hver ég tel að muni standa út úr fjöldanum þegar kemur að því að hitta fulltrúa annarra landa, þá er niðurstaðan mín alltaf að Jón Gnarr sé besti valkosturinn. Hver er þinn?

Ég óska þér góðs gengis í kosningunum.

Höfundur er spenntur fyrir kosningunum




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×