Gunnar er Grafarvogsbúum góðkunnur enda uppalinn hjá félaginu og fyrsti Fjölnismaðurinn sem lék á stórmóti með landsliðinu í handbolta.
Hann á langan atvinnumannaferil að baki í Svíþjóð, Frakklandi, Danmörku og Þýskalandi. Undanfarin ár hefur hann verið spilandi aðstoðarþjálfari Stjörnunnar við hlið Patreks Jóhannessonar en ákvað að leggja skóna á hilluna í vor.
Fjölnir tilkynnti ráðningu rétt í þessu og blés þar með á sögusagnir um að liðið myndi afþakka sætið í Olís deildinni vegna fjárhagsörðugleika. Rekstur félagsins er mjög þungur þessa dagana og fyrir helgi var ákveðið að draga körfuboltalið kvenna úr keppni í Subway deildinni á næsta tímabili.
„Það eru spennandi tímar fram undan í Grafarvoginum og handboltadeildin ætlar að leggja allt kapp á að skapa góða stemningu og gleði í kringum starfið í vetur,“ segir í tilkynningu Fjölnis sem má sjá hér að neðan.