Djokovic sló Francisco Cerundolo út í fimm settum í gær en rann til í leirnum og varð fyrir hnémeiðslum í öðru settinu. Hann innbyrti hámarksmagn sem leyfilegt er af verkjalyfjum og hélt leik áfram.
„Ég veit ekki hvað gerist, hvort ég muni geta stigið aftur inn á völlinn og spilað,“ sagði Djokovic eftir sigurinn í gærkvöldi.
Hann kennir slæmum vallaraðstæðum um meiðslin.
„Það er eins og einhver leir hafi horfið í dag. Mjög lítið af eða nánast enginn leir á vellinum í dag. Þurrt í lofti, sól og hiti, það hefur áhrif á leirinn þannig að hann verður sleipari. Þess vegna meiddist ég í dag, ég rann til.“
Meðlimir í lækna- og þjálfarateymi Djokovic eru sagðir hafa sett sig í samband við mótsskipuleggjendur til að athuga hvort viðhaldi vallarins hafi verið sinnt eftir ítrustu kröfum.