Ólafur Ragnar Grímsson hefur gengt embætti forseta Íslands lengur en nokkur annar eða í 20 ár. Hann er einnig doktor í stjórnmálafræði og fyrsti prófessor Háskóla Íslands í þeim fræðum. Í umræðum um breytingar á stjórnarskránni undanfarin ár hafa margir talið nauðsynlegt að breyta ákvæðum hennar um embætti forseta Íslands.
Á kosningavöku Stöðvar 2 sagði Ólafur Ragnar nýafstaðnar forsetakosningar vera þær fyrstu þar sem helstu frambjóðendur hefðu verið sammála um að minnsta kosti fjögur meginvaldsvið og verksvið forseta.
„Málskotsréttinn, aðkomu hans í að ákveða þingrof, hlutverk hans við myndun ríkisstjórnar og endanlega ábyrgð hans á að lýðveldið hafi ríkisstjórn. Og að vera, ef þarf með, málsvari þjóðarinnar á erlendum vettvangi,“ sagði forsetinn fyrrverandi á kosningavöku Stöðvar 2.

Þessi kosningabarátta hefði því endanlega afgreitt allar deilur eða umræður um þessi fjögur atriði.
„Nú er ekki aðeins samstaða um það svona fræðilega, heldur hefur þjóðin líka sýnt með þessum úrslitum, ef þú leggur saman tölur þeirra frambjóðenda sem töluðu með þessum hætti; að það er afgerandi lýðræðislegur stuðningur þjóðarinnar við þessi fjögur meginhlutverk forsetans,“ segir Ólafur Ragnar.
Þá væri einnig merkilegt að í umræðunni fyrir kosningar hefði fimmti þátturinn bæst við hjá að minnsta kosti sumum þeirra sem fengu mest fylgi. Sem væri að forsetinn ætti að taka að sér að vera eins konar umræðuhvati, fundarstjóri, leiða samtal og efna til funda á Bessastöðum.

„Ef þú ferð aftur til Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar, Kristjáns Eldjárns og svo jafnvel til tíðar Vigdísar og mín, þá hefði það verið framandi hugsun. Og fyrstu þremur forsetunum algerlega framandi. Að það ætti að fara að nota Bessastaði sem fundarstað. En það virðist líka að vera að koma lýðræðislegt umboð og stuðningur frá þjóðinni við það hlutverk,“ sagði Ólafur Ragnar.
Fyrstu þrjátíu greinar stjórnarskrárinnar fjalla með einum eða öðrum hætti um forsetaembættið. Ólafur Ragnar segir stjórnarskrána hafa reynst vel í þeim efnum. Hún byggi yfir nauðsynlegum sveigjanleika til þróunar.
„Og það er reyndar ein af þessum villikenningum sem vaða hérna uppi; að þetta sé dönsk stjórnarskrá. Það er ekkert danskt í þessari stjórnarskrá. Þetta er fyrst og fremst evrópsk stjórnarskrá sem endurspeglar stjórnkerfisbyltingarnar í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Ólaf Ragnar í heild sinni.