Þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis. Í svarinu segir að nýja verklagið sé öruggara og að sambærilegt verklag sé viðhaft við jarðvarmavinnslu hér á landi. Osowski var starfsmaður fiskverkunarfyrirtækisins Háteigs og gisti í gömlu mötuneyti skammt frá virkjuninni þegar að slysið varð.
Koma í veg fyrir að atvikið endurtaki sig
„Breytingar voru gerðar á verkferlum fyrirtækisins strax í kjölfar slyssins. Meginbreytingin fólst í því að við niðurdælingu á köldu vatni skal í öllum tilvikum vera ker á milli vatnsveitu og niðurdælingar þannig að tryggt sé að gas geti ekki borist frá holu í vatnsveitulagnir,“ segir í svarinu.
HS Orka harmar að banaslysið hafi orðið og segir að verkferlar fyrirtækisins hafi verið endurbættir gagngert til að koma í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig.
Gerðu samkomulag við aðstandendur
Spurð hvort að HS Orka beri ábyrgð á banaslysinu á grunni vanrækslu og gáleysis segir Birna að lögreglurannsókn hafi farið fram og málið látið niður falla.
„Líkt og fram kemur í skýrslu Vinnueftirlitsins frá þessum tíma varð röð atvika til þess að skapa þær aðstæður sem leiddu til slyssins,“ segir í svarinu en tryggingafélag fyrirtækisins gerði samkomulag við aðstandendur Osowski um bætur.
Ekkert gert áður en það var of seint
Eins og greint var frá sagði Jóhannes Helgason, fyrrum rannsakandi Vinnueftirlitsins, í samtali við Vísi að banaslysið hefði ekki þurft að eiga sér stað og að auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir það.
Sambærilegt atvik átti sér stað árið 2013 með sömu borholu en þá virðist sem ekkert hafi verið gert þó að atvikið hafi verið skráð í dagbók fyrirtækisins og kallað eftir betri umgengni um borholuna.
Spurð hvers vegna ekkert var aðhafst eftir upprunalega atvikið 2013 segir Birna í skriflegu svari sínu að svo virðist sem eitthvað hafi ollið því að ekki var brugðist við ábendingunni með fullnægjandi hætti á sínum tíma. Eftirlitsaðilar voru upplýstir um það.
Spurð hvort eitthvað hafi verið gert í kjölfar atviksins árið 2013 segir Birna: „Ríflega áratugur er liðinn og ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um til hvaða aðgerða var gripið á sínum tíma.“
Draga lærdóm frá slysinu
Í svarinu kemur fram að HS Orka dragi lærdóm frá banaslysinu og að öryggismál séu í forgrunni hjá fyrirtækinu.
„HS Orka harmar hið sviplega banaslys. Fyrirtækið telur það óásættanlegt að einstaklingar verði fyrir skaða vegna starfsemi eða framkvæmda fyrirtækisins. Allt kapp er því lagt á að tryggja öryggi starfsfólks, verktaka og annarra sem tengjast starfsemi fyrirtækisins.
Öryggismál eiga alltaf að vera í forgrunni og því mikilvægt að dreginn sé lærdómur af atburðum sem þessum. Metnaður okkar stendur til þess að vinna ávallt eftir bestu mögulegu öryggisviðmiðum sem þekkjast.