Assange hefur ekki verið frjáls maður í fjórtán ár. Búist er við því að Assange lendi í Canberra um klukkan um 9.30 eða 18.30 að staðartíma. Wikileaks hefur tilkynnt að þau haldi blaðamannafund í Canberra stuttu síðar, eða klukkan 11.15 eða 21.15 að staðartíma. Greint er frá á BBC.
Assange fór fyrir dóm á Norður-Maróinaeyjum í Kyrrahafi en eyjarnar eru undir stjórn Bandaríkjanna. Í frétt Reuters um málið segir að hann hafi varið um þremur klukkustundum í dómsal og eftir það gengið út sem frjáls maður. Flugið frá eyjunum til Canberra eru um sex klukkustundir.

Assange játaði á sig eitt brot í dómsal en sagði að hann hafði haldið að stjórnarskráin og ákvæði hennar um tjáningarfrelsi myndi verja sig. Lögmaður Assange, Barry Pollock, sagði við fjölmiðla fyrir utan að hann tryði því að Assange hefði aldrei átt að vera ákærður fyrir brot á njósnalögunum. Hann sagði jafnframt að vinnu við Wikileaks yrði haldið áfram.
Ástralskur lögmaður Assange, Jennifer Robinson, þakkaði áströlsku ríkisstjórninni fyrir diplómatíska aðstoð og sagði það mikinn létti fyrir hann að geta snúið aftur heim til fjölskyldu og vina í Ástralíu. Forsætisráðherra Ástralíu fagnaði frelsi Assange á ástralska þinginu í gær og sagði þett afurð mikillar og erfiðrar vinnu.
Assange svaraði engum spurningum fjölmiðla á leið út, en veifaði til þeirra á leiðinni út. Hann fór svo beint upp í einkaflugvél til Canberra.