Þetta staðfestir Snorri Sturluson, verjandi Péturs Jökuls, í samtali við Vísi. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá. Snorri segist ekki geta tjáð sig efnislega um úrskurð Landsréttar að svo stöddu. Fyrirtaka verði í málinu á morgun.
Greint var frá því á fimmtudag síðustu viku að ákæru á hendur Pétri Jökli hefði verið vísað frá vegna óskýrleika í ákæru. Áður hafði dómari í málinu hirt ákæruvaldið fyrir að leggja ekki fram nákvæma verknaðarlýsingu Péturs Jökuls í ákæru.
Héraðssaksóknari skaut úrskurðinum til Landsréttar, sem sneri honum við í gær og beindi því til héraðsdóms að taka málið til efnislegrar meðferðar. Úrskurðurinn hefur ekki enn verið birtur og því liggur ekki fyrir á hvaða forsendum það var gert.
Nóg er að gera í máli Péturs Jökuls fyrir Landsrétti þessa dagana. Á föstudag kvað Landsréttur upp úrskurð þess efnis að Pétur Jökull skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þrátt fyrir frávísunarúrskurðinn.