Þrátt fyrir stórsigur Eyjamanna var staðan í hálfleik markalaus. Það var ekki fyrr en á 50. mínútu að fyrsta markið leit dagsins ljós þegar Sigurður Arnar Magnússon kom ÍBV yfir.
Við það opnuðust flóðgáttirnar og Oliver Heiðarsson tvöfaldaði forystu Eyjamanna á 59. mínútu áður en Arnar Breki Gunnarsson skoraði þriðja mark liðsins átta mínútum síðar.
Víðir Þorvarðarson bætti svo tveimur mörkum við í uppbótartíma og niðurstaðan varð 5-0 sigur ÍBV.
Á sama tíma gerðu Leiknismenn góða ferð norður og unnu 0-1 sigur gegn Dalvík/Reyni þar sem Omar Sowe skoraði eina mark leiksins og í Breiðholtinu gerðu ÍR og Þór 1-1 jafntefli þar sem Fannar Daði Malmquist Gíslason skoraði mark Þórsara áður en Guðjón Máni Magnússon jafnaði metin fyrir ÍR-inga.