Mbl.is greindi fyrst frá þessu en málið snýst um kæru sem Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður lagði fram. Hann sakar þær um að brjóta lög um opinberar fjársafnanir, mútugreiðslur til erlendra opinerra starfsmanna og fjármögnun hryðjuverka.
Það skortir rökstuðning fyrir niðurfellingu
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari segir þetta ekki hafa neitt með það hver niðurstaðan í málinu kann að verða.
„Við erum bara að segja þeim að vinna vinnuna sína,“ segir Helgi Magnús í samtali við Vísi.
Helgi Magnús segir hafa skort rökstuðning til að fella þetta niður. „Það felst enginn rökstuðningur í því að fullyrða að þetta sé opinber söfnun ef því fylgir enginn rökstuðningur. Það er bara einhver fullyrðing út í loftið eftir eina eða tvær yfirheyrslur.“
Að sögn vararíkissaksóknari felst þetta í því að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ljúki meðferð málsins og að ákvörðunin, hver svo sem hún kann að verða, byggi á fullnægjandi rannsókn.
„Ef um opinbera fjársöfnun er að ræða þarf að tilkynna það og fá leyfi til þessa. Það virðist stokkið á það sem verjandi þeirra segir.“
Góður málstaður dugar ekki einn og sér
Svo virðist sem tilhneigingar gæti hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að rugla saman því að ef um góðan málstað sé að ræða og ekki megi trufla slíkt með einhverju lagakjaftæði.

„En þau verða að geta þau fært rök fyrir þessu og það komu engin rök. Okkar vinna er að byggja þetta á lögum og röksemdum og því sem rannsókn leiðir í ljós. Allt þetta venjulega, þetta verður ekki afgreitt öðruvísi en að kryfja þetta.“
Hvorki náðist í Semu Erlu né Maríu Lilju í morgun en lögmenn þeirra, Helga Vala Helgadóttir og Gunnar Ingi Jóhannsson hafa alfarið hafnað ásökunum Einars.