Nýjar tölur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sýna að vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4 prósent í júní. Íbúðaverð á landsvísu hefur hækkað um 9,1 prósent á síðustu tólf mánuðum, sem er rúmum þremur prósentustigum yfir verðbólgu sem á sama tíma hefur mælst 5,8 prósent. Þá nam raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 3,1 prósentum í júní, en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um 2 prósent að raunvirði í maí og 0,3 prósent að raunvirði í apríl.
„Fasteignaverð er að taka svolítið við sér. Við höfum fengið ágætis hækkun núna tvo mánuði í röð en á þessum tíma í fyrra þá var mjög lítið að gera, þá sáum við einstaka lækkanir á milli mánaða,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.

Þá hefur sala einnig aukist frá því í fyrra, en um þrjátíu prósent fleiri kaupsamningar hafa verið undirritaðir samanborið við sama tíma í fyrra. „Það er svolítið sérkennilegt að þetta sé að eiga sér stað á þeim tíma þar sem við búum við svona ofboðslega háa vexti og höfum gert það í dágóðan tíma,“ segir Una.
Nokkrir þættir kunni að skýra þessa þróun. „Þetta gæti verið af því að það eru væntingar um vaxtalækkanir framundan, að það hreyfi svolítið við eftirspurninni. Svo er líka hægt að benda mögulega á áhrif vegna Grindavíkur, það er að segja þar varð stóraukin þörf á íbúðarhúsnæði annars staðar þegar fólk frá Grindavík þurfti að flýja.“
Ekki sé útilokað að fasteignaverð haldi áfram að hækka. „Það getur alveg haldið svona áfram eitthvað næstu mánuði, það er alveg útlit fyrir það að íbúðir haldi aðeins áfram að hækka,“ segir Una.