Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Morgunblaðið um ástæður þess að samræmdu könnunarprófin voru lögð niður árið 2021.
Mikið er nú deilt um ákvörðunina um að leggja prófin niður en Lilja segir að rekja megi upphaf breytingaferlisins á samræmdum prófum þegar þau voru lögð niður í 10. bekk árið 2008, í ráðherratíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
„Í kjölfarið fer Menntamálastofnun í að gera prófin rafræn og það verður að segjast eins og er að hún réð ekki við framkvæmdina,“ segir Lilja.
Hún segir einkunnarkerfið í grunnskólunum flókið og erfitt fyrir nemendur og foreldra að vita hvernig börnin standa.
„Mælitækið sem er að koma, það verður ekki þannig. Það þarf að einfalda kerfið og gera það gagnsærra svo allir séu meðvitaðir um stöðuna. Þess vegna fórum við, bæði ég og núverandi menntamálaráðherra, að stokka upp þessa stofnun því þetta gekk ekki upp.“