Steven van de Velde keppir fyrir hönd Hollands í strandblaki á Ólympíuleikunum sem hefjast formlega á morgun. Árið 2016 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga tólf ára breskri stúlku.
Van de Velde sat inni í ár og hélt svo áfram með feril sinn. Hann var síðan valinn í Ólympíulið Hollands fyrir leikana í París.
Í viðtali við útvarpsstöðina LBC óskaði Radcliffe Van de Velde góðs gengis á Ólympíuleikunum. Hún sagði að hann hefði snúið lífi sínu við og það væri hart að refsa honum tvisvar.
Radcliffe fékk bágt fyrir ummælin í útvarpsþættinum og hefur nú beðist afsökunar á þeim.
„Ég er í áfalli yfir því hversu illa ég kom þessu frá mér og fordæmdi ekki nauðgunina,“ sagði Radcliffe.
„Ég trúi á önnur tækifæri eftir að hafa setið af sér refsingu en mér finnst að Ólympíuleikar eigi að vera fyrir þá sem halda gildum þeirra á lofti. Ég biðst afsökunar og hefði átt að gera mun betur.“
Þrátt fyrir að Van de Velde fái að keppa á Ólympíuleikunum má hann ekki dvelja í Ólympíuþorpinu. Hann má heldur ekki ræða við fjölmiðla á meðan leikunum stendur.
Radcliffe keppti á fernum Ólympíuleikum (1996-2008) en vann engin verðlaun á þeim. Hún varð aftur á móti heimsmeistari 2005 og vann Lundúnamaraþonið í þrígang.