Víkurvöllur hefur verið endurgerður undanfarin ár og þykir einn glæsilegasti 9 holu völlur landsins. Hann er staðsettur við tjaldsvæðið og er par 36 (72) og þykir þægilegur í göngu.

„Fyrir utan frábært starfsfólk í skála og á vellinum, afburða góðar flatir og að um er að ræða einn glæsilegasta 9 holu völl á landinu þá er það stórbrotið útsýni Breiðafjarðar sem blasir við manni af mörgum teigum og víðsvegar af vellinum,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Golfklúbbsins Mostra í Stykkishólmi, þegar hann er spurður hvað einkenni helst Víkurvöll. „Það útsýni er sérstaklega fallegt af 6. teig sem er par 3 hola en hún er spiluð yfir vog en Víkurvöllur liggur á milli tveggja ása niður að strönd.“

Hann segir völlinn henta byrjendum jafnt sem reyndari kylfingum. Hann sé frekar opinn en geti þó reynt á reyndari kylfinga.
Stutt í góða þjónustu
Að sögn Magnúsar er völlurinn vel sóttur af heimamönnum en einnig er mikið af gestum sem koma og spila hann yfir sumartímann.

Ýmis þjónusta er í boði fyrir gesti og má þar fyrst nefna golfskálann þar sem boðið er upp á eitthvað af veitingum í föstu og fljótandi formi. „Þá er tjaldsvæðið við golfvöllinn og sundlaugin skammt frá. Fosshótel Stykkishólmi stendur einnig við völlinn og liggur stígur frá því aftanverðu niður á völl svo það er hæglega hægt að labba þaðan með golfsettin meðferðis.“

Hann segir Víkurvöll staðsettan innan bæjarmarka Stykkishólms og því sé í raun allt í grennd við hann. „Það tekur til að mynda ekki langan tíma að rölta niður að bryggju þar sem hinir ýmsu veitingastaðir eru á leiðinni eins og Skúrinn, Skipperinn, Narfeyrastofa, Sjávarpakkhúsið og Hafnarvagninn.“