Um risastóra stund er að ræða fyrir St. Mirren og stuðningsmenn liðsins. Þetta er í fyrsta sinn í tæpa fjóra áratugi sem liðið á sæti í Evrópukeppni í fótbolta.
Nokkur hundruð Skotar eru mættir hingað til lands fyrir leik kvöldsins og hefur mannskapurinn keyrt upp stemninguna á Dubliners í miðborg Reykjavíkur í dag.
Þegar að íþróttadeild Vísis bar þar að garði í dag var stemningin mikil og ljóst að stuðningsmenn St. Mirren hefðu geta verið mun fleiri. Jafnvel vel á eitt þúsund í fjölda. Takmarkað sætaframboð á N1 vellinum sér hins vegar til þess að svo verður ekki.
Hér fyrir neðan má sjá stemninguna hjá stuðningsmönnum St. Mirren á Dubliners í miðborg Reykjavíkur í dag:
Leikur Vals og St. Mirren verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst hann klukkan korter í sjö. Um risastórt Evrópukvöld er að ræða á Íslandi þar sem að fjögur Bestu deildar lið eiga heimaleik í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.
- Leikir íslenskra liða í Sambandsdeild Evrópu fimmtudaginn 25. júlí
- 18:45 Víkingur - Egnatia (Stöð 2 Sport 5)
- 18:45 Valur - St. Mirren (Stöð 2 Sport)
- 19:00 Stjarnan - Paide (Stöð 2 Besta deildin 1)
- 19:15 Breiðablik - Drita (Stöð 2 Besta deildin 2)