Nokkur hundruð stuðningsmenn St. Mirren byrjuðu upphitun á Dubliner í miðbæ Reykjavíkur skömmu eftir hádegi í dag. Þar fór vel um þá líkt og greint var frá á Vísi.
Hér má nálgast beina textalýsingu frá leiknum.

Við tók skrúðganga þaðan á Hlíðarenda seinni partinn og hefur sjaldan sést álíka fjöldi í Fjósinu fyrir utan Hlíðarenda fyrir fótboltaleik. Vel var gengið á ölbirgðirnar og þegar um ein og hálf klukkustund var þar til flautað yrði til leiks voru bjórdósir á Valssvæðinu á þrotum.
Það skemmdi ekki gott skap Skotanna þegar Guðmundur Torfason lét sjá sig. Sá lék með St. Mirren árin 1989 til 1992. Aðsúgur var gerður að Guðmundi og vildu allir fá með sér mynd af hetjunni.
David Winnie, sem lék í vörn KR í kringum aldamótin, var með Guðmundi í för og var einnig vinsæll. Sá lék yfir 150 leiki fyrir St. Mirren í upphafi ferilsins.
Leikur Vals og St. Mirren verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst hann klukkan korter í sjö. Um risastórt Evrópukvöld er að ræða á Íslandi þar sem að fjögur Bestu deildar lið eiga heimaleik í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.
- Leikir íslenskra liða í Sambandsdeild Evrópu fimmtudaginn 25. júlí
- 18:45 Víkingur - Egnatia (Stöð 2 Sport 5)
- 18:45 Valur - St. Mirren (Stöð 2 Sport)
- 19:00 Stjarnan - Paide (Stöð 2 Besta deildin 1)
- 19:15 Breiðablik - Drita (Stöð 2 Besta deildin 2)
