Fyrstu árin voru þessar hátíðir afar fjölmennar og mun Síldarævintýrið hafa haft sín áhrif á að upp spruttu bæjarhátíðir víða um land, hátíðir sem lögðu m.a. áherslu á sögu viðkomandi bæja.
Síldarævintýrið er fjögurra daga fjölskylduhátíð með fjölbreyttum viðburðum fyrir alla aldurshópa. Markmið hátíðarinnar er að kynna það sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk að ógleymdu stórfenglegu umhverfi og sögunni sem er við hvert fótmál. Það er fyrst og fremst heimafólk sem sér um að skemmta gestum hátíðarinnar enda Siglufjörður ríkur af listafólki, söfnum og setrum.

Hátíðin hefst fimmtudaginn 1. ágúst og þann dag ber hæst sameiginlega grillveislu bæjarbúa og gesta á skólabalanum á Siglufirði. Þar verða grillaðar pylsur ofaní gesti og gangandi. Í kjölfar grillveislunnar byrjar svo tónlistin að óma á skemmtistöðum bæjarins.
Svo rekur hver viðburðurinn annan næstu dagana, tónlist hljómar áfram á skemmtistöðum og einnig á bryggjum, torgum og götum, listsýningar og viðburðir verða á söfnum, bjórleikar, fjöldasöngur, flugeldasýning, skoðunarferð um varðskipið Freyju og sigling ef veður leyfir, músikbingó, fornbílasýning, hjólaferðir, golfmót og strandblakmót er meðal þess sem verður í boði.

Öll barnadagskrá frí
Líkt og síðustu ár er öll barnadagskrá á Síldarævintýrinu börnunum að kostnaðarlausu með aðstoð frábærra styrktaraðila og sveitarfélagsins Fjallabyggðar. Ýmislegt verður í boði fyrir börn og ungmenni t.d. hoppukastalar, nerf-byssur og andlitsmálun, froðufjör með Slökkviliði Fjallabyggðar, sundlaugardiskó, sigling með varðskipinu Freyju (ef veður leyfir), veiði í Hólsá fyrir börn yngri en 16 ára, þrautabraut á Segli 67 og grillveisla ogfjöldasöngur. Rúsínan í pylsuendanum er að hoppa í sjóinn með Hopplandi og er það einnig frítt fyrir 0 - 18 ára.
Síldin á svo náttúrulega sinn sess á Síldarævintýri. Hið stórglæsilega Síldarminjasafn Íslands er opið alla daga hátíðarinnar, líkt og aðra daga sumarins. Þar verður söltunarsýning og dansinn stiginn á bryggjunni. Auk þess mun síldargengið taka rúnt um bæinn og gömlu góðu síldarslagararnir munu óma um götur Siglufjarðar enn á ný.
Það er félagið Síldarævintýrið á Siglufirði sem stendur að hátíðinni í samstarfi við ýmsa rekstaraðila í síldarbænum.