Bandaríkjamenn lentu í vandræðum snemma leiks. Serbar komust sjö stigum yfir um miðjan fyrsta leikhlutann og leiddu með átta stigum að honum loknum. Þeir juku síðan á forskotið í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 54-43 Serbum í vil.
Svipuð þróun hélt áfram í þriðja leikhlutanum. Bandaríkjamenn náðu aðeins að minnka muninn en Serbar svöruðu og komust mest fimmtán stigum yfir undir lok leikhlutans.
Áhlaup Bandaríkjamanna kom hins vegar í fjórða leikhlutanum. Á örskömmum tíma breyttu þeir stöðunni úr 80-73 í 84-84. Allt jafnt og undir lokin stigu stjörnur Bandaríkjamanna upp á meðan Nikola Jokic og félagar virtust sprungnir og gátu ekki keypt sér körfu.

Steph Curry setti niður þrist og kom Bandaríkjamönnum í 87-86 og LeBron James og Curry skoruðu síðan tvær hraðaupphlaupskörfur í röð og staðan skyndilega orðin 91-86 Bandaríkjunum í vil.
Serbum tókst að minnka muninn í tvö stig í tvígang en höfðu ekki kraftana í meira en það. Bandaríkjamenn unnu lokafjórðunginn með sautján stigum og leikinn 95-91.
Eins og áður segir var það Steph Curry sem var maðurinn á bakvið sigur Bandaríkjamanna. Hann skoraði 36 stig og hitti úr níu af fjórtán þriggja stiga skotum sínum sem gerir 64% nýtingu. Mögnuð frammistaða.
STEPH CURRY IN THE COMEBACK WIN:
— Overtime (@overtime) August 8, 2024
36 PTS
12/19 FG
9/14 3PT
8 REB
DIFFERENT 🔥 pic.twitter.com/i0aKTZXcAu
Joel Embiid skoraði 19 stig fyrir Bandaríkjamenn og LeBron James átti frábæran leik líkt og Curry með16 stig auk þess að taka 12 fráköst og gefa 10 stoðsendingar. Bogdan Bogdanovic var stigahæstur hjá Serbíu með 20 stig og Nikola Jokic skoraði 17.
Bandaríkjamenn mæta Frökkum í úrslitum á sunnudag.