Körfubolti

Ráku sigursælasta þjálfarann rétt fyrir úr­slita­keppnina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Taylor Jenkins var óvænt og að því er virðist ástæðulaust látinn fara.
Taylor Jenkins var óvænt og að því er virðist ástæðulaust látinn fara. Christian Petersen/Getty Images

NBA liðið Memphis Grizzlies hefur ákveðið að reka sigursælasta þjálfara í sögu félagsins, Taylor Jenkins, þegar aðeins níu leikir eru eftir af tímabilinu og úrslitakeppnin framundan.

Jenkins hefur verið þjálfari liðsins síðustu sex tímabil, unnið 250 leiki og tapað 214. Hann hefur þrisvar komist í úrslitakeppnina með liðið og var líklega á leiðinni þangað í fjórða sinn enda liðið í fimmta sæti vesturdeildarinnar með 44 sigra og 29 töp.

Liðinu hefur þó ekki vegnað mjög vel undanfarið, tapað fjórum af síðustu og alls tapað ellefu leikjum af nítján eftir hléið sem var vegna stjörnuleiksins. Búist var við því að liðið myndi leita að nýjum þjálfara eftir tímabilið en brottreksturinn var skyndilega tilkynntur og án ástæðu í dag.

Sögusagnir hafa verið á sveimi um óánægju Jenkins með yfirmenn sína hjá félaginu, sérstaklega eftir að hann var látinn skipta nánast öllu þjálfarateyminu út eftir slakan árangur á síðasta tímabili. Þá hefur þjálfarinn einnig sést rífast við stjörnuleikmann liðsins, Ja Morant, á hliðarlínunni í leik fyrr á tímabilinu.

Ekki er víst hver mun taka við starfinu en aðstoðarþjálfarinn Toumas Iisalo mun væntanlega stýra liðinu í næstu leikjum hið minnsta. Hann er einn af nýju aðstoðarþjálfurunum sem Jenkins var ósáttur með, Iisalo er sagður hafa haft mikil áhrif á leikskipulag liðsins, sem hefur verið ógnarhratt, á tímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×