Ummælin á Gallant að hafa látið falla á fundi um öryggismál.
„Þegar Gallant tekur undir með orðræðunni gegn Ísrael dregur hann úr möguleikanum á að ná samningum um lausn gíslanna,“ sagði í yfirlýsingunni. Sigur gegn Hamas væru skýrt markmið forsætisráðherrans og ríkisstjórnarinnar og Gallant væri skuldbundinn til að vinna að því.
Gallant hefur ekki staðfest að hafa lýst markmiðinu um tortímingu Hamas sem „vitleysu“ en sagði í eigin yfirlýsingu í gær að hann væri staðráðin í að ná markmiðum stríðsins og halda áfram að berjast þar til Hamas-samtökin hefðu verið leyst upp og gíslarnir frelsaðir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Netanyahu og Gallant deila en verulegur ágreiningur er uppi innan ríkisstjórnarinnar um stríðið og framtíð Gasa.
Ísraelsmenn búa sig nú undir hefndaraðgerðir af hálfu Íran, Hamas og Hezbollah eftir drápin á Ismail Haniyeh, pólitískum leiðtoga Hamas, í Tehran og Fuad Shukr, einum leiðtoga Hezbollah, í Beirút.
John F. Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að Bandaríkjamenn væru sammála því mati Ísraelsmanna að árás af hálfu Íran gæti átt sér stað í þessari viku. Hann sagðist engu að síður gera ráð fyrir því, að óbreyttu, að vopnahlésviðræður hæfust á ný á fimmtudag.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og leiðtogar í Egyptalandi og Katar hafa sagst munu leggja fram lokatillögu að vopnahléi á fundinum á fimmtudag. Þá sendu Biden og leiðtogar Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem þeir sögðu brýnt að ljúka málinu.
Þeir hvöttu einnig Íran til að láta af hótunum sínum um hernaðarlega árás á Ísrael.