Aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu heldur áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Pétur Jökull Jónasson er ákærður fyrir aðild að innflutningi á tæplega hundrað kílóum af kókaíni hingað til lands sumarið 2022. Fjórir hafa þegar hlotið dóma í málinu og telur lögregla að Pétur Jökull hafi verið í lykilhlutverki við skipulagningu innflutningsins.
Telja síma huldumanns hafa ferðast með Pétri
Málflutningur er fyrirhugaður í dag og fyrir hann spurði Daði Kristjánsson dómari í málinu hvort sækjandi eða verjandi ætluðu að leggja fram gögn. Snorri Sturluson, verjandi Péturs Jökuls, svaraði játandi og afhenti dómara og Dagmar Ösp Vésteinsdóttur upplýsingar um flugferðir frá Frankfurt í Þýskalandi til Bangkok í Taílandi sumarið 2022.
Meðal sönnunargagna í málinu sem lögregla telur benda til þess að Pétur Jökull sé huldumaður sem lagði á ráðin með innflutning á kókaíninu eru upplýsingar um að sími í eigu huldumannsins hafi ferðast fyrrnefnda leið á sama tíma og Pétur Jökull.
Fram kom í máli aðalvarðstjóra hjá ríkislögreglustjóra fyrir dómi að meðal annars vegna þessa væri ljóst að Pétur Jökull væri sá sem gengi undir notendanöfnum á borð við Harry, Nonna og Patron Cartoon og Trucker til að hylja slóð sína.
Ahugasemd við áreiðanleika gagna
Snorri spurði aðalvarðstjóra við aðalmeðferðina hvort lögregla hefði kannað hvort það hefðu verið fleiri flug þennan morgun. Hann svaraði neitandi. Þeir hefðu aðeins kannað hvort Pétur Jökull hefði verið um borð í einni flugvél á þessari leið umræddan dag.
Með framlagningu gagnanna vill Snorri benda á þann möguleika að síminn hafi ferðast til Taílands með annarri flugvél. Það hafi lögregla ekki kannað.
Dagmar Ösp saksóknari gerði athugasemd við það að gagnanna hefði verið aflað með gervigreind. Óvíst væri hvort átt hefði verið við gögnin eða hvernig þau hefðu verið fengin. Því væri óljóst hvort gögnin gæfu rétta mynd af flugsamgöngum þennan dag og óvíst um áreiðanleika þeirra.
Uppgötvaði að ChatGPT væri ókeypis í gærkvöldi
Snorri benti á að í skjalinu sem hann prentaði út væri athugasemd sem hægt væri að smella á. Þær vísuðu til heimasíðna flugfélaganna. Hann væri tilbúinn að senda saksóknara og dómara þær upplýsingar. Daði dómari gerði athugasemd við að upplýsingarnar hefðu ekki legið fyrir fyrr. Snorri verjandi sagðist bara hafa áttað sig á því að hann gæti keypt sér aðgang að ChatGPT til að fá upplýsingar um flugferðir aftur í tímann.
Við málflutninginn í dag mun Dagmar saksóknari reyna að sýna fram á sekt Péturs Jökuls í málinu, gera kröfu um refsingu, á meðan Snorri verjandi heldur uppi vörnum fyrir sinn skjólstæðing.