Þetta sagði forsetinn í reglulegu ávarpi sínu til almennings en í frétt Guardian segir að það sé í fyrsta sinn sem fram komi, með svo skýrum hætti, hver tilgangurinn sé með innrás Úkraínuhers inn í Kúrsk-hérað. Innrásin hófst 6. ágúst og hafði hann áður gefið í skyn að tilgangur hennar væri að vernda samfélög við landamærin frá stöðugum loftárásum.
Í ávarpi sínu sagði Selenskíj það helsta markmið Úkraínuhers að eyðileggja möguleika Rússlands á stríði og að tryggja gagnsóknina. Innifalið í því sé að búa til hlutlaust svæði á landsvæði Rússa.
Í frétt Guardian segir að í yfirlýsingum frá úkraínskum yfirvöldum hafi áður lítið komið fram um markmið þeirra með innrásinni í Kúrsk-hérað. Árásin hafi komið Rússum í opna skjöldu enda hafi Úkraínumenn allt frá því að þeir réðust inn tekið hundruð rússneskra stríðsfanga.
Yfirmaður hersins, hershöfðinginn Oleksandr Syrskyi sagði í síðustu viku að herinn væri búinn að taka um þúsund ferkílómetra svæði undir sig þó ekki sé ljóst hversu stórum hluta landsvæðisins herinn raunverulega stjórnar.
Í ávarpi sínu sagði forsetinn að með því að búa til þessa hlutlausa svæði hafi úkraínski hersinn náð „góðum og þörfum árangri“.