Engar líkur eru taldar á að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist á miðvikudag eins og margir höfðu vonast til. Reiknað er með að stýrivextir verði áfram 9,25 prósent og munu þá hafa staðið óbreyttir í heilt ár. Við förum yfir stöðuna með Herði Ægissyni ritstjóra Innherja í beinni útsendingu í myndveri.
Þá hitum við upp fyrir umfangsmestu heitavatnslokun sögunnar, sem skellur á í kvöld. Heitavatnsleysið mun einkum hafa áhrif á starfsemi sundlauga höfuðborgarsvæðisins. Við verðum í beinni útsendingu frá Kópavogslaug þar sem starfsfólk undirbýr sig fyrir lokun.
Námsgögn verða gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema að átján ára aldri og fjárframlag til námsgagnagerðar mun tvöfaldast nái frumvarp barnamálaráðherra fram að ganga. Útgefandi fagnar því að stjórnvöld séu farin að átta sig á umfangi vandans, úrelt námsgögn séu alvarlegt samfélagsmein.
Og Magnús Hlynur fer í heimsókn á Dalvík, þar sem hann skellti sér í ansi óhefðbundinn ísrúnt með tveimur vinkonum.
Í sportinu hittum við fyrirliða Fylkis, sem kveðst hafa haft gott af löngu leikbanni í Bestu deildinni. Og í Íslandi í dag ræðir Sindri Sindrason við Maren Brynju Kristinsdóttir, sem fór í kulnun og missti alla trú á sjálfri sér. Þéttur pakki í kvöldfréttum Stöðvar 2 sem horfa má á í opinni dagskrá í spilaranum hér fyrir neðan.