Úrhellisrigning er á Tröllaskaga og á norðanverðu landinu. Á Siglufirði hefur mælst 150 millímetra úrkoma síðasta sólarhringinn. Vatn flæddi vinn í nokkur hús á Eyrinni þar í morgun. Áfram er spáð rigningu fram á morgundaginn en þá að að draga úr ákefðinni, að því er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Skriðuhætta verður áfram viðvarandi, jafnvel eftir að rigningunni slotar.
Nú hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra ákveðið að lýsa yfir óvissustigi vegna rigningarinnar og skriðuhættunnar. Ákvörðunin var tekin eftir fund almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra með aðgerðastjórn á Norðurlandi eystra og Veðurstofunni.
Vegagerðin hefur nú lokað Siglufjarðarvegi frá Hrauni að Strákagöngum vegna grjóthruns þar. Hjáleið er um Lágheiði.
Tilkynnt hefur verið um grjóthrun og aurskriður utan við Suðureyri í Súgandafirði, í Tungudal við Ísafjörð, í Breiðadal í Önundarfirði, tvær skriður í Siglufirði, nokkrar skriður og grjóhrun á Siglufjarðarveg og tvær skriður í Strandarhreppi samkvæmt Veðurstofunni. Ekkert tjón hefur orðið á innviðum eða húsum vegna þessa.