Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu. Þar segir að orlofið hafi verið greitt út með reglulegum hætti til ársins 2004 en síðan þá hafi uppgjör ótekinna orlofsdaga farið fram við starfslok hjá öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lét af störfum sem borgarstjóri um áramótin eftir tíu ára starf. Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að Dagur hefði fengið greiddar 7,9 milljónir króna í orlofsuppgjör. Um er að ræða 69 daga þar sem 21 dagur er orlofs sem hann hafði unnið sér inn á þessu orlofsári og svo 48 dagar í uppsafnað orlof.
Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum hjá Reykjavíkurborg um greidda orlofsdaga fyrri borgarstjóra til samanburðar. Í svörum Reykjavíkurborgar er að finna upplýsingar síðustu rúmu fjörutíu ára sem taka til níu borgarstjóra auk Dags.
Í skriflegu svari Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra Reykjavíkurborgar, segir að samkvæmt gögnum borgarinnar virðist hafa verið ákveðið árið 1989 að greiða óteknar orlofstundir til borgarstjóra. Frá 1989 hafi óteknar orlofsstundir verið greiddar út reglulega, en frá 2004 hafi uppgjör ótekinna orlofsdaga farið fram við starfslok eins og hjá öðru starfsfólki Reykjavíkurborgar.
Að neðan má sjá hve marga ónýtta orlofsdaga síðustu tíu borgarstjórar fengu greidda:

Dagur B. Eggertsson (16.6.2014 - 31.12.2023)
Uppgjör: 69 dagar. Áunnið orlof fyrir þetta orlofstímabil var 21 dagur og ótekið eldra orlof var 48 dagar.

Jón Gnarr (15.6.2010 – 15.6.2014)
Uppgjör 2014: 47,6 dagar (samkvæmt viðverukerfi, uppgjör launaskrifstofu ekki staðfest – beðið gagna)

Hanna Birna Kristjánsdóttir (21.8.2008 – 15.6.2010)
Uppgjör 2010: 41 dagur

Ólafur F. Magnússon (24.1.2008 – 21.8.2008)
Uppgjör 2008: 10 dagar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (13.6.2006 – 16.10.2007)
Uppgjör 2007: 23 dagar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (30.11.2004 – 13.6.2006)
Uppgjör 2006: 21 dagur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (13.6.1994 – 1.2.2003)
Uppgjör 1995: 12 dagar
Uppgjör 1997: 22 dagar
Uppgjör 1998: 30 dagar
Uppgjör 2000: 18 dagar
Uppgjör 2001: 16 dagar
Uppgjör 2002: 18 dagar
Uppgjör 2003 : 28 dagar
Samtals: 143 dagar árin 1995-2003

Árni Sigfússon (17.3.1994-13.6.1994)
Uppgjör 1994: 7.5 dagar

Markús Örn Antonsson (16.7.1991-17.3.1994)
Uppgjör 1992: 30 dagar
Uppgjör 1993: 30 dagar
Uppgjör 1994: 30 dagar
Samtals: 90 dagar árin 1992-1994

Davíð Oddsson (27.5.1982-16.7.1991)
Uppgjör 1989: 56 dagar
Uppgjör 1991: 37 dagar
Samtals: 93 dagar 1989 vegna áranna 1982-1989 (56) og 1989-1991 (37).
Uppgjör annarra bæjarstjóra
Spegillinn á RÚV kannaði hvernig starfslokum bæjarstjóra í nágrannasveitarfélögunum hefði verið háttað. Í Garðabæ hætti Gunnar Einarsson nýlega eftir 17 ár í starfi, Haraldur Sverrisson eftir 15 ár í starfi í Mosfellsbæ og Ármann Kr. Ólafsson eftir tíu ár í Kópavogi.
Í svörum sveitarfélaganna við fyrirspurn RÚV kom fram að vegna ótekins orlofs á orlofsárinu og uppsafnaðs orlofs hefði Gunnar fengið útgreiddar 7,8 milljónir í Garðabæ, Haraldur fékk 9,6 milljónir króna og Ármann fékk um sjö milljónir.
Fréttin var uppfærð. Dagur fékk greiddar 7,9 milljónir við uppgjörið en ekki 9,7 milljónir. Mismunurinn voru launatengd gjöld Reykjavíkurborgar vegna uppgjörsins.