Þetta herma heimildir fréttastofu en þingflokkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks hafa ákveðið að gera breytingar á nefndaskipan í kjölfar þess að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra í vor. Hefð er fyrir því að formaður fjárlaganefndar og fjármálaráðherra séu ekki í sama flokki.
Samkomulag er nú innan þingflokka stjórnarflokkanna um formennsku í fastanefndum þingsins þó að formenn nefnda séu ekki valdir að forminu til fyrr en á fyrsta fundi hverrar nefndar eftir þingsetningu.
Njáll Trausti var varaformaður fjárlaganefndar á síðasta ári en mun nú taka við formennsku í nefndinni. Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gegndi formennsku í nefndinni á síðasta þingvetri og verður varaformaður nefndarinnar.

Hættir í efnahags- og viðskiptanefnd
Greint var frá því á þingfundi í gær að Sjálfstæðismaðurinn Teitur Björn Einarsson væri hættur í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hann gegndi formennsku síðasta þingvetur. Hann tekur sæti í atvinnuveganefnd og verður þar annar varaformaður. Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki mun þar taka við formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd samkvæmt heimildum fréttastofu.
Dilja Mist gegndi formennsku í utanríkismálanefnd síðasta vetur, en Jóhann Friðrik Friðriksson Framsóknarflokki kemur nýr inn í nefndina og mun samkvæmt heimildum fréttastofu taka við formennsku. Bjarni Jónsson Vinstri grænum verður varaformaður nefndarinnar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu mun Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki áfram gegna formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd. Þá mun Þórarinn Ingi Pétursson áfram gegna formennsku í atvinnuveganefnd, Bjarni Jónsson Vinstri grænum formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd og Steinunn Þóra Árnadóttir Vinstri grænum verður áfram formaður í velferðarnefnd.
Tilkynnti um mannabreytingar
Forseti Alþingis greindi síðdegis í gær frá þeim mannabreytingum sem yrðu í fastanefndum þingsins. Kom þar fram að hjá Framsóknarflokki tæki Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir sæti sem aðalmaður í fjárlaganefnd í stað Jóhanns Friðriks Friðrikssonar og Ingibjörg Isaksen yrði varamaður í sömu nefnd í stað Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur. Þá myndi Jóhann Friðrik Friðriksson taka sæti sem aðalmaður í utanríkismálanefnd í stað Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur.
Í þingflokki Sjálfstæðisflokks tæki Birgir Þórarinsson sæti sem aðalmaður í efnahags- og viðskiptanefnd í stað Teits Björns Einarssonar. Þá myndu Teitur Björn og Jón Gunnarsson taka sæti sem aðalmenn í atvinnuveganefnd í stað Birgis Þórarinssonar og Ásmundar Friðrikssonar.