„Ég sá að þú varðst strax rauður þegar Graham Potter kom í mynd. Þú tókst upp símann og sagðir: Hann er ekkert búinn að heyra í mér. Kemur ekki í ljós að þið spiluðuð bæði saman í Stoke og West Brom og hann klúðraði því að þið færuð upp einu sinni,“ sagði Guðmundur Benediktsson í Stúkunni í gær.
Lárus Orri tók í kjölfarið við boltanum.
„Hann gerði það í rauninni. Við vorum í umspili gegn Leicester, 1995, 1996, eitthvað svoleiðis, og komnir í seinni leikinn og hann fékk algjört dauðafæri í þeim leik, nánast fyrir opnu marki, og klikkaði á því. Annars hefðum við farið upp en ekki Leicester,“ sagði Lárus Orri.
„Hann var fínasti leikmaður. Hann spilaði á kantinum hjá okkur. Ég man ekki hvort við spiluðum eitthvað saman hjá West Brom. Ég held að hann hafi ekki verið í liðinu þegar ég kom þangað og fór fljótlega. En hann stóð sig vel hjá Stoke, spilaði á kantinum, var með mjög góðar fyrirgjafir.“
Lárus Orri fór svo að hafa áhyggjur af því að Potter sæti við skjáinn og væri að fylgjast með Stúkunni.
„Er hann nokkuð að horfa á þáttinn? Hann var svolítið linur, stundum. En góður drengur,“ sagði Lárus Orri léttur.
Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.