Lögreglumenn á vegum ríkislögreglustjóra voru sendir í Rjóðrið, hvíldarheimili fyrir langveik börn, seint á sunnudagskvöld. Þar var Yazan Tamimi, ellefu ára drengur frá Palestínu sem glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóm, vakinn með það fyrir augum að flytja hann og móður hans úr landi. Um svipað leyti braust lögregla inn í húsnæði sem fjölskyldan hefur til afnota og handtók föður hans.
Til stóð að fljúga fjölskyldunni til Spánar á grundvelli Dyflinnarsáttmálans. Þangað flaug fjölskyldan frá Palestínu áður en hún kom til Íslands árið 2023. Félagsmálaráðherra fór þess á leit að málið fengi frekari umræðu og ákvað dómsmálaráðherra að fresta brottvísun.
Tilhögun ríkislögreglustjóra hefur vakið athygli og hefur formaður Duchenne-samtakanna hér á landi sagt geta verið hættulegt fyrir Yazan að ferðast til Spánar.
Marín Þórsdóttir, verkefnastjóri heimferða- og fylgdadeildar hjá ríkislögreglustjóra, mætti í Kastljós í gærkvöldi til að ræða slíkan brottflutning. Þar sagði hún að ekki væri ráðist í slíkar aðgerðir nema með grænu ljósi frá lækni.
„Þegar við erum með líkamlega veika einstaklinga þá er rætt við lækna. Ef þeir eru með lækna þá er rætt við þá. Ef þeir hafa ekki verið í læknismeðferð og talið er að hætta sé á, þá er fengið læknismat og gefið út svokallað „Fit to fly“-vottorð og það er gert,“ sagði Marín.
Það lægi alltaf fyrir áður en farið væri í aðgerðir sem þessar.
Nokkur hundruð manns hafa komið saman við Hverfisgötu í morgun þar sem ríkisstjórnin fundar. Vill hópurinn mótmæla meðferðinni á Yazan og kallar eftir að hann fái dvalarleyfi hér á landi.