Bikarvikurnar í körfubolta og handbolta, svokallaðar „Final 4“-vikur, hafa notið mikilla vinsælda og stuðningsmenn flykkst í Laugardalshöll til að sjá bikara fara á loft.
Gallinn er sá að Laugardalshöll er einnig æfinga- og keppnisaðstaða barna og fullorðinna í Laugardal, sem misst hafa aðstöðu sína drjúgan hluta vetrarins vegna viðburða á borð við bikarúrslitavikurnar.
Þetta er staðan á meðan að beðið er eftir nýrri þjóðarhöll sem óvíst er hvenær mun rísa.
Tilkynnt síðasta vetur
Íþróttabandalag Reykjavíkur tók því þá ákvörðun að banna KKÍ og HSÍ að halda bikarúrslitavikur í Laugardalshöll. Sú ákvörðun var tilkynnt á sameiginlegum fundi ÍBR með samböndunum síðasta vetur.
KKÍ ákvað í kjölfarið að fara í útboð og endaði á að velja Smárann í Kópavogi fyrir sína bikarúrslitaviku í vetur.
Fram kom hjá Róberti Geir Gíslasyni, framkvæmdastjóra HSÍ, í nýjasta þætti Handkastsins að Handknattleikssambandið ætlaði sömuleiðis í útboð til að finna nýja staðsetningu fyrir sína bikarúrslitaviku.
Landsleikir áfram í Laugardalshöll
„Það er auðvitað leiðinlegt að geta ekki verið í Höllinni því það er alltaf mjög sérstök og hátíðleg stemming að vera þar með VÍS-bikarinn og landsleiki auðvitað. En við skiljum líka ákvörðun ÍBR mjög vel og virðum hana. Þetta var unnið vel og faglega af þeirra hálfu,“ segir Hannes.
Hannes segir að landsleikir muni þó áfram flestir fara fram í Laugardalshöll. Undantekning sé þó í nóvember þegar kvennalandsliðið í körfubolta spili tvo leiki í Ólafssal, vegna árekstrar við leiki kvennalandsliðsins í handbolta sem spila mun í Laugardalshöll.