Stuðningspakkinn, ef svo má segja, er metinn á rúma átta milljarða dala, sem samsvarar um billjón króna.
Meðal þeirra hergagna sem til stendur að senda til Úkraínu eru flugskeyti í loftvarnarkerfi, eitt Patriot-loftvarnarkerfi, skotfæri fyrir fallbyssur og HIMARS-eldflaugakerfi, Javelin og AT-4 eldflaugar sem hannaðar eru til að granda skrið- og bryndreku. Bryndreka og annarskonar brynvarin farartæki, brýr, báta, byssur, skotfæri og ýmislegt annað.
Hér að neðan má sjá nýleg myndbönd af tveimur rússneskum skriðdrekum verða fyrir Javelin í austurhluta Úkraínu.
Javelin strikes on two Russian MT-LBshttps://t.co/IKBiOyf1uV pic.twitter.com/u1M8YcFPW6
— Special Kherson Cat 🐈🇺🇦 (@bayraktar_1love) September 26, 2024
Pakkinn inniheldur eining svifsprengjur en fregnir af þeim höfðu áður borist í fjölmiðlum vestanhafs.
Svifsprengjurnar sem um ræðir kallast AGM-154 og geta drifið allt að 113 kílómetra, eftir því úr hvaða hæð þeim er varpað. Þannig er hægt að varpa þeim það langt í burtu að flest loftvarnarkerfi Rússa drífa ekki að orrustuþotunum og geta sprengjurnar fundið skotmörk sín með mikilli nákvæmni.
Rússar hafa um nokkuð skeið notað svipaðar sprengjur gegn Úkraínumönnum með miklum árangri. Sprengjurnar eru sérstaklega hannaðar með F-16 orrustuþotur í huga og tilkynnti Biden einnig að auka ætti umfang þjálfunar úkraínska flugmanna á þær þotur. Alls myndu Bandaríkjamenn þjálfa átján flugmenn á næsta ári en flugmenn eru einnig þjálfaðir í öðrum ríkjum í Evrópu.
Í yfirlýsingu sem Hvíta húsið birti í dag segir Biden að stuðningur við Úkraínu hafi verið í miklum forgangi í ríkisstjórn hans á þeim tæpu þremur árum síðan innrás Rússa hófst. Á þeim tíma hefði Úkraínumönnum tekist að reka Rússa á brott frá stórum svæðum sem þeir hefðu upprunalega hernumið og héldu áfram að verja sjálfstæði sitt og fullveldi.
Enn væri þó mikið verk fyrir höndum.
Biden sagðist ætla að boða til fundar hjá bakhjörlum Úkraínu í Þýskalandi í næsta mánuði, þar sem samræma ætti stuðning ríkjanna við Úkraínumenn.
Yfirvöld í Þýskalandi tilkynntu í gær nýjan stuðningspakka til Úkraínu. Hann er ekki eins umfangsmikill og sá bandaríski og er verðmetinn á um fjögur hundrað milljóni Evra. Hann inniheldur flugskeyti fyrir loftvarnir, loftvarnarkerfi, skriðdreka, dróna, skotfæri og varahluti, svo eitthvað sé nefnt.