„Ég myndi styðja allt sem konan mín gerir,“ segir Clooney meðal annars í samtali við bandaríska tímaritið People. Hjónin stofnuðu góðgerðarsamtökin undir eigin nafni árið 2016. „Hún er alltaf réttu megin línunnar og ég er alltaf stoltur af því þegar ég er í sama herbergi og hún sama hvað er um að vera og hér erum við stödd á viðburði þar sem við beinum athyglinni að fólki sem fær ekki næga athygli.“
Hjónin hafa undanfarin ár látið mannréttindabaráttu sig varða og stutt hin ýmsu mannúðarverkefni um heim allan. Amal hrósaði sínum manni einnig í hástert á rauða dreglinum og sagði samstarf þeirra hið allra besta. Starfið gæfi þeim báðum mikið. Þau fagna í dag tíu ára brúðkaupsafmæli og þau ætla að fagna vel samkvæmt leikaranum sem grínaðist með það á rauða dreglinum að hann hyggðist ekki segja henni hvert þau væru að fara.
George hefur áður tjáð sig um samstarf þeirra hjóna og hrósað því í hástert. Þau hafa nóg fyrir stafni en eiga meðal annars hina sjö ára gömlu tvíbura þau Alexander og Ellu.