Í tilkynningu þess efnis á vef Reykjavíkurborgar segir að lóðirnar í Vesturbugt séu Hlésgata 1 og 2. Heimilt sé að byggja allt að 177 íbúðir í tveggja til fimm hæða húsum auk bílakjallara og um 1.420 fermetra af atvinnuhúsnæði. Byggingarréttur sé seldur á rúmlega 2,8 milljarða og álögð gatnagerðargjöld séu um 330 milljónir.
Staðið til frá árinu 2017
Uppbygging í Vesturbugt hefur lengi staðið til en ferlið hefur ekki gengið snuðrulaust fyrir sig. Samningur um uppbyggingu var undirritaður árið 2017 en Reykjavíkurborg rifti honum í fyrra vegna athafnaleysis viðsemjands, Vesturbugtar ehf.
Byggingarétturinn var boðinn út að nýju í júlí og var M3 fasteignaþróun ehf. hæstbjóðandi og nú hefur verið gengið frá samningum við félagið.
Stefnir á að hefjast handa næsta vor
„Það er frábært að geta nú loksins hafið hönnun og byrjað að skipuleggja uppbyggingu á þessum einstöku byggingarreitum við vesturhöfnina við miðborg Reykjavíkur. Segja má að þetta sé síðasti þéttingarreiturinn í miðborginni og í raun einstakt að geta boðið íbúðir til sölu þetta nálægt gömlu höfninni í Reykjavík,“ er haft eftir Erni V. Kjartanssyni, framkvæmdastjóra M3 fasteignaþróunar.
Ef vel gangi með hönnun megi gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist snemma vors á næsta ári.