Guðný lagði upp fyrsta og þriðja mark Kristianstad sem komst í 3-0 gegn Växjö í dag en þó að staðan væri þannig þegar tuttugu mínútur voru eftir, þá endaði leikurinn 3-3.
Þar skipti sköpum að markvörður Kristianstad, Moa Olsson, fékk rautt spjald á 70. mínútu. Katla var þá tekin af velli og hin 38 ára gamla Brett Maron, fyrrverandi markvörður Aftureldingar og Vals, kom inn á í mark Kristianstad.
Växjö skoraði strax úr aukaspyrnu og bætti svo við tveimur mörkum á síðustu tíu mínútunum.
Guðný, Katla og Hlín Eiríksdóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad og Bryndís Arna Níelsdóttir í byrjunarliði Växjö. Katla fór eins og fyrr segir af velli eftir rauða spjaldið, og Bryndís af velli á 74. mínútu. Þórdís Elva Ágústsdóttir var hins vegar á bekknum hjá Växjö.
Kristianstad er núna með 43 stig í 4. sæti deildarinnar en Växjö er með 27 stig í 8. sæti, nú þegar liðin hafa spilað 23 af 26 leikjum.