Í pistlinum er farið yfir aðstöðuleysi fimleikadeildar Keflavíkur og þá staðreynd að á meðan er verið að láta körfuboltalið Njarðvíkur fá nýja og glæsilega aðstöðu þá er ekki staðið við loforð við fimleikadeildina.
Fimleikadeild Keflavíkur er næst stærsta íþróttadeildin á Suðurnesjum með hátt í sex hundruð iðkendur en aðstaðan í Íþróttaakademíunni í Krossmóa er löngu sprungin.
Ástandið versnaði síðan enn frekar þegar Myllubakkaskóli fékk hluta af húsnæðinu vegna myglu þar. Sú ráðstöfun átti að vera tímabundin en hefur nú staðið yfir í næstum fjögur ár.
Fimleikadeildin vekur athygli á því að Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur sé aðeins með þrjú hundruð iðkendur, eða helming þess sem er í fimleikum, en að hún hafi nýlega fengið afhent stærsta íþróttahús landsins.
Af því að fimleikadeildinni lofað tíma í íþróttahúsinu í Akurskóla á álagstímum var farið í að fjárfesta í nýju hópfimleikagólfi, svo hægt væri að létta á álaginu í fimleikasalnum með því að bjóða upp á dansæfingar hópfimleika í Akurskóla.
„Nú hefur þetta loforð verið svikið, þar sem Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hyggst halda áfram að fullnýta bæði Ljónagryfjuna og íþróttahúsið í Akurskóla samhliða fullnýtingu nýrrar Stapagryfju, og tímarnir sem fimleikadeildinni eru boðnir eru seint á kvöldin eða um helgar en ekki álagstímar í fimleikasalnum eins og lagt var upp með. Þetta gerir það að verkum að við sitjum uppi með hópfimleikagólf sem við getum ekki nýtt,“ segir í greininni.
Stjórn fimleikadeildarinnar hefur farið yfir æfingatöflur Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og segir það augljóst að nýting þessa þriggja íþróttamannvirkja er langt undir þeirri pressu sem aðrar íþróttagreinar á Suðurnesjum búa við.
„Við teljum að þessi ákvörðun sé tekin með hagsmuni fárra í huga og á kostnað iðkenda fimleikadeildarinnar og hindrar okkur í að stunda okkar starfsemi á eðlilegan hátt,“ segir í greininni en hana má sjá hér fyrir ofan eða með því að smella hér.