Í samtali við íþróttadeild Vísis segir Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, að búið sé að fara yfir Kerecisvöllinn á vélknúnu tæki og taka mesta snjóinn af honum. Sex sjálfboðaliðar eru nú mættir á völlinn, þeirra á meðal téður Samúel og þjálfarinn Davíð Smári Lamude, til þess að handskafa restina af snjónum svo í ljós komi iðagrænn litur gervigrassins.
Gervigras var lagt á Kerecisvöllinn fyrir yfirstandandi tímabil en fram að þeirri stundu hafði lið Vestra leikið sína leiki á náttúrulegu grasi. Aðstæður sem hefði ekki verið hægt að leika við á morgun.

Lagnir voru lagðar undir Kerecisvöllinn áður en að gervigras var sett á hann en ekki er búið að virkja það kerfi og því er staðan sú eins og er að völlurinn er ekki upphitaður.
Að sögn Samúels hefur veðrið á Ísafirði verið með góðu móti fyrri hluta vikunnar og hefur lið Vestra geta æft við góðar aðstæður. Hins vegar hafi tekið að snjóa í fyrradag og í gær og því þurfi að moka völlinn í dag.
„Hitinn steig seinna upp heldur en spáð höfðu gert ráð fyrir og rigningin sem að spáð var hefur ekki látið sjá sig. Við erum því að handskafa völlinn þessa stundina og svo verður æft á honum seinni partinn,“ sagði Samúel en engin snjókoma er í kortunum fram að leik og hann hefur engar áhyggjur af því að völlurinn verði ekki leikhæfur.

„Eins og spár eru núna gæti snjóað eitthvað í hálfleik eða seinni hálfleik. Það er þó ekkert frost í kortunum.“
Vestri og HK eru jöfn að stigum í tíunda og ellefta sæti Bestu deildarinnar fyrir leikina í lokaumferðinni á morgun. Vestri er þó með töluvert betri markatölu og situr því í síðasta örugga sæti deildarinnar og sigri þeir Fylki á morgun er ljóst að sæti þeirra í deildinni verður tryggt fyrir næsta tímabil.

HK mætir KR á morgun. HK verður að treysta á að Vestri tapi stigum sem og klára sitt gegn KR til að halda sæti sínu í deildinni.
Aðspurður um stemninguna fyrir vestan fyrir stóra deginum á morgun hafði Samúel þetta að segja:
„Stemningin er góð í kringum félagið. Leikmenn eru staðráðnir í að klára þetta verkefni sjálfir og að þurfa ekki að treysta á aðra.“