Það er hart barist í úrslitaleiknum í Fossvoginum eins og við var að búast. Töluvert var rætt um meiðsli í herbúðum Víkinga fyrir leikinn en Valdimar Þór Ingimundarson og Oliver Ekroth voru báðir tæpir vegna meiðsla. Ekroth er í byrjunarliðinu í miðri vörninni en Valdimar Þór ekki í hóp.
Það var hins vegar Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks sem þurfti að gera breytingu á sínu byrjunarliði vegna meiðsla strax eftir tuttugu mínútur.
Þá skullu þeir Kristinn Jónsson leikmaður Breiðabliks og Víkingurinn Erlingur Agnarsson saman og lágu báðir eftir. Erlingur gat fljótlega staðið á fætur en Kristinn lá lengi á vellinum og virtist bæði vankaður og þjáður.
Að lokum neyddust Blikar til að skipta Kristni af velli og kom nafni hans Kristinn Steindórsson inná í hans stað.
Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.