Baráttan hefur verið óvenju hörð og stór orð hafa verið látin falla. Mikla athygli vakti á dögunum þegar fremur óþekktur grínisti kom fram á fundi með Donald Trump í New York á dögunum þar sem hann líkti eyjunni Puerto Rico við ruslahaug.
Þessi ummæli fóru fyrir brjóstið á mörgum og frambjóðendur demókrata nýttu sér þau til að gagnrýna orðræðu Trump og hans stuðningsmanna í garð innflytjenda. Joe Biden forseti og fyrrverandi frambjóðandi blandaði sér svo í slaginn í gærkvöldi með ummælum sem eru þó ekki talin koma Kamölu Harris sérstaklega vel. Í stuttu myndskeiði sést hann gagnrýna ummælin harðlega og segist ekki kannast við rusl í tengslum við fólk frá Puerto Rico. Eina ruslið sem hann sjái séu stuðningsmenn Trumps, virðist hann segja.
Þessi ummæli forsetans hafa síðan aftur vakið gríðarlega hörð viðbrögð hjá Repúblikönum sem hafa hamast á forsetanum aldna. JD Vance varaforsetaefni Trump segir að með þessum ummælum hafi Biden ráðist að helmingi Bandaríkjamanna og Trump sjálfur vék að ummælunum á kosningafundi í Pennsylvaníu. Hann hæddist síðan að forsetanum aldna og bað stuðningsmenn sína um að fyrirgefa honum, þar sem hann vissi ekki hvað hann væri að segja.