Erlent

Pakistan segir Ind­land mögu­lega gera á­rás á næstu klukku­stundum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Attaullah Tarar er ráðherra upplýsingamála í Pakistan.
Attaullah Tarar er ráðherra upplýsingamála í Pakistan. Getty

Attaullah Tarar, upplýsingamálaráðherra Pakistan, segir að landið búi yfir áreiðanlegum upplýsingum sem bendi til þess að Indland hyggist gera árás á allra næstu dögum.

Mikil spenna hefur verið milli landanna tveggja eftir árás í Pahalgam í Kasmír í síðustu viku þar sem 26 létust. Indversk stjórnvöld hafa sagt Pakistan bera einhverja ábyrgð á árásinni, en Pakistönsk stjórnvöld hafna því. Síðan hafa þjóðirnar tvær beitt hvorri annarri ýmsum þvingunaraðgerðum.

„Pakistan hefur vitneskju um áreiðanlegar upplýsingar um að Indland hyggist gera hernaðarlega árás á næstu 24 til 36 klukkustundum þar sem Pahalgam-málið verður notað sem fölsk ástæða,“ skrifaði Tarar á samfélagsmiðilinn X.

„Öllum verkum sem framin verða í árásarhug verður svarað með afgerandi hætti. Indland verður ábyrgt fyrir öllum alvarlegum afleiðingum á svæðinu.“

Í umfjöllun Reuters um málið er bent á að báðar þjóðir búi yfir kjarnorkuvopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×