Hér má hlusta á lagið Vor sem kemur út á helstu streymisveitum á morgun. Texti er eftir Þorstein Einarsson:
Hjálmar fagna heilum tuttugu árum í bransanum og spila í tilefni af því á Airwaves á morgun, 7. nóvember, á Listasafni Reykjavíkur. Fyrr um daginn spila þeir á Grund.
„Ég verð örugglega meira vakandi á Grund því hitt giggið er svo seint,“ segir Guðmundur Kristinn Jónsson eða Kiddi, meðlimur Hjálma, kíminn.
Í tilefni af þessum tímamótum verða kærkomnir endurfundir hjá Hjálmum og sænskum samstarfsfélögum þeirra.
„Svíarnir ætla að koma aftur í heimsókn á Airwaves, þau Nisse, Maja og Mikael. Við unnum mikið með þeim að fyrstu lögunum okkar, Ég vil fá mér kærustu og fleiri góð. Við höfum ekki sést í einhver fimmtán ár og þetta verða kærkomnir endurfundir,“ segir Kiddi.

Svíarnir hafa komið víða að í tónlistarheiminum. Nisse spilar til dæmis með heimsklassa tónlistarfólki á borð við Miike Snow, Lykke Li, Amason og Robyn. Mike hefur sömuleiðis unnið mikið með Lykke Li og Maja starfar sem prestur.

Meðlimir Hjálma hlakka mikið til að fagna afmælinu og flytja sín bestu lög. Þeir voru sömuleiðis að senda frá sér tónlistarmyndband sem má sjá hér: