Flestar hafa aurskriðurnar fallið á Vestfjörðum. Þó nokkrar á veginn um Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn lokaðist um tíma eftir að stór skriða féll á hann á þriðjudaginn og hefur Vegagerðin staðið í ströngu við að hreinsa hann.
Mikil hlýindi og úrkoma, sem hafa verið síðustu daga, eru nokkuð óvenjuleg á þessum árstíma. Það ásamt snjónum sem féll í október á norðanverðum Vestfjörðum á stóran þátt í skriðuföllunum þar sem leysingar ásamt úrkomu ýta undir skriðuföll.
„Hitinn er alveg langt yfir meðallagi. Fjögur til fimm stig yfir meðallagi víðast hvar. Hlýjast á Norðurlandi og svo höfum verið að slá alveg fjölda hitameta, nóvemberhitameta, og núna síðast vorum við að slá sem sagt nóvemberhitametið fyrir landið allt núna í hádeginu þegar að hitinn mældist 23,8 stig á Kvískerjum. Þannig það er óvenjulegt,“ segir Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum hjá Veðurstofu Íslands.
Kristín segir landsmenn geta búið sig undir að hitamet falli oftar yfir vetrartímann.
„Fyrra hitametið frá nóvember var frá 1999. Þá fór hitinn yfir tuttugu stig í fyrsta skipti í nóvember og síðan þá, síðan 1999, hefur það gerst margoft yfir vetrartímann. Þannig að það náttúrulega er vísbending um að við ættum að eiga von á þessu oftar og oftar með hlýnandi loftslagi. Með hlýnandi veðurfari þá náttúrulega eykst hlutfall úrkomu sem fellur sem rigning en ekki snjór. Þá mættum við alveg búast við því að skriðuföll gætu aukist þá en snjóflóðunum myndi þá líklega fækka á móti.“
Áfram er skriðuhætta á vestanverðu landinu, sér í lagi Vestfjörðum. Draga á úr hættunni í nótt og á morgun.
„Það á að kólna núna strax á morgun og spáir köldu í næstu viku áfram. Þannig að við erum að fara að sjá breytingar núna.“