Daníel Örn Unnarsson sætir ákæru fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið lækninn að minnsta kosti fjórum sinnum í háls, síðu og nára. Hann játar verknaðinn en hafnar því að um tilraun til manndráps hafi verið að ræða.
Atvik málsins urðu föstudagskvöld í júní þegar læknirinn var á göngu ásamt eiginkonu sinni og vinahjónum þeirra.
Var að horfa á fótbolta
Daníel Örn gaf skýrslu fyrstur þegar aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjaness í gærmorgun. Hann lýsti atvikum svo að hann hefði verið heima hjá sér að horfa á fótboltaleik, nánar tiltekið leik á Evrópumeistaramóti karla í knattspyrnu sem fram fór í sumar. Hann hafi fengið sér tvo bjóra yfir leiknum.
Að leik loknum hafi hann ákveðið fara heim til vinar síns og taka með sér hníf sem hann hefði nýverið keypt sér í Kolaportinu. Honum hafi þótt hnífurinn „töff“ og hann talið að vinurinn myndi vilja sjá hann.
Fólkið hafi tekið yfir allan göngustíginn
Daníel Örn sagðist hafa farið heim til vinar síns á eigin rafhlaupahjóli. Á leiðinni hafi hann mætt tvennum hjónum, sem hafi gengið hlið við hlið og þannig lagt undir sig allan göngustíginn. Hann hafi hægt á sér og reynt að fara fram hjá hópnum hægra megin en rekist utan í annan manninn og fallið í jörðina við það.
Eftir það hafi þeir farið að munnhöggvast, maðurinn hafi verið mjög æstur og sagt honum að hann ætti ekki að vera á rafhlaupahjóli á göngustíg heldur ætti hann að vera á hjólastíg.
Ekki stoltur af því sem hann kallaði konuna
Konurnar tvær hafi reynt að róa manninn niður og gengið með hann frá honum. Þá hafi önnur konan sagt eitthvað við hann sem hafi móðgað hann. Hann hafi þá svarað konunni einhverju sem hann sé ekki stoltur af. Vitni hafa borið um að Daníel Örn hafi kallað konuna „kerlingartussu“.
Þá hafi læknirinn, sem hafi fram að þessu verið pollrólegur og staðið rétt fyrir framan hann, slegið hann bylmingshöggi í gagnaugað með þeim afleiðingum að fossblæddi. Læknirinn tók alfarið fyrir það að hann hefði lamið Daníel Örn þegar hann bar vitni.
Hann hafi þá tekið upp hnífinn úr vinstri vasa, opnað hann með því að ýta á takka, og sveiflað honum á meðan hann hörfaði undan. Hann hafi ekki haft neinn ásetning til þess að stinga lækninn.
Með alls konar greiningar og varð hræddur
Daníel Örn sagðist gera sér grein fyrir því núna að hann hafi stungið lækninn, eftir að hafa verið sagt af því eftir á. Á verknaðarstundu hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að hann hefði sært lækninn. Hann hafi orðið mjög hræddur enda glími hann við mikinn kvíða, hann sé raunar með „alls konar greiningar“.
„Ég sveiflaði bara hnífnum og hljóp í burtu. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en lögreglan sagði mér frá þessu.“
Vinurinn stökk upp á hlaupahjólið og fór á eftir árásarmanninum
Daníel Örn lýsti því svo að hann hefði hlaupið á brott, aðspurður sagðist hann hafa verið að flýja það sem hann taldi yfirvofandi árás frekar en að láta sig hverfa af vettvangi glæps.
Á hlaupunum hafi hann tekið eftir því að vinur læknisins, sá sem hann hefði upphaflega munnhoggist við, væri á eftir honum á rafhlaupahjólinu hans. Hann hefði skilið það eftir í óðagoti.
Vinurinn hafi náð honum, tekið hann hálstaki og loks haft hann undir í einhvers konar hengingartaki. Þá hafi lögreglu borið að og hann verið handtekinn. Í aðalmeðferðinni kom fram að vinur mannsins er með réttarstöðu sakbornings vegna þessara átaka, sem fóru fram í sjávarmálinu við Sæbólsbraut í Kópavogi. Lögreglurannsókn á þeim anga málsins sé enn opin.