Heimildir Vísis herma að konan sé enn í gæsluvarðhaldi og mál hennar verði tekið fyrir í dómi í dag, þar sem tekin verður ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald. Að sögn Ægis Þórs Eysteinssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ekkert mál tengt íslenskri konu í gæsluvarðhaldi á Tenerife komið inn á borð borgaraþjónustunnar.
Réðst á þrjá
Í gögnum frá lögreglunni á Spáni sem Vísir hefur undir höndum segir að atvik málsins hafi gerst um klukkan 23:30 á föstudagskvöld. Haft er eftir vitni að fjölskyldan hafi verið heima í mestu rólegheitum þegar konan fór skyndilega í uppnám vegna þess að sonur hennar var enn vakandi.
Þegar mágkona hennar hafi lagt til að hún svæfði barnið hafi hún fyrirvaralaust ráðist á mágkonuna, rifið í hana, hrint henni á vegg og þaðan á gólfið og hent tveimur vínglösum í átt að henni og tengdamóður sinni.
Tengdamóðirin hafi þá reynt að róa konuna niður en hún rifið í hana og hrint henni í gólfið, og hugsanlega kýlt hana í augað í leiðinni. Loks hafi tengdafaðir hennar reynt að skerast í leikinn og konan hrint honum í gólfið. Hann hafi ekki kært atvikið.
Er með geðhvörf
Í gögnum segir að bróðir konunnar hafi þá komið á vettvang, en hann hafi dvalið á öðru hóteli á Tenerife, róað konuna niður og farið með hana frá vettvangi.
Hann hafi séð að herbergið hafi verið alþakið blóði og tengdamóðirin hafi þá tekið eftir skurði á vinstri framhandlegg hennar. Það hefði getað gerst þegar konan kastaði glasinu í hana, en ekki sé hægt að fullyrða það.
Loks segir að konan þjáist af geðhvörfum og hafi áður ráðist á fólk. Hún sé á lyfjum vegna geðhvarfanna.