Skoðun

Við­reisn er Sam­fylkingin

Júlíus Viggó Ólafsson skrifar

Fylgi flokka hefur verið á reiki undanfarnar vikur og mánuði, samkvæmt skoðanakönnunum, en einn flokkur hefur fengið mikinn byr í seglin undanfarið og mig langar að beina sjónum að honum: Viðreisn.

Viðreisn segist ætla að tækla málin, lækka vexti, lækka verðbólgu, laga ríkisfjármálin… bara koma þessu öllu í lag. Viðreisn er svona Sjálfstæðisflokkur fyrir fólk sem vill ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða í það minnsta vill gefa honum frí. Öll ábyrgðartilfinningin sem fylgir því að kjósa borgaralegan flokk en ekkert af farangrinum. Engin blár þungi, bara appelsínugulur léttleiki með Jóni Gnarr og Toggu K.

Margir á miðju til hægri væng stjórnmálanna treysta núna Viðreisn, en flestir þessir kjósendur vilja kjósa borgaralegan flokk vegna þess að þeir vilja borgaralega ríkisstjórn með sambærileg gildi að leiðarljósi. Staðreyndin er sú að slík ríkisstjórn mun ekki raungerast undir forystu Viðreisnar. Atkvæði greitt til Viðreisnar er atkvæði greitt til Samfylkingarinnar. Þ.e.a.s. til vinstristjórnarsamstarfs Viðreisnar, Samfylkingar og annara flokka. Reykjavíkurmódelið fyrir landið allt.

“Við verðum að tryggja að ungt fólk geti keypt sér íbúð,” stendur skýrum stöfum á vefsíðu Viðreisnar. Þetta skýtur skökku við enda bera Viðreisn og Samfylkingin sameiginlega ábyrgð á lóðaskortsstefnunni í Reykjavík. Við munum uppskera eins ef þau komast í ríkisstjórn, nema nú ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu.

Það má segja að flokkurinn sé að toppa á nákvæmlega réttum tíma, og þegar maður er að toppa er best að hrófla ekki við því sem vel gengur. Þess vegna heyrist minna og minna í umræðu viðreisnarfólks um sitt grundvallarmálefni: Evrópusambandið.

Það má ekki misskiljast. Viðreisn og Samfylkingin munu gera allt í sínu valdi til að mynda saman ríkisstjórn, rétt eins og í Reykjavík, og þegar samstarfið er innsiglað mun dulda kjarnamálefnið þeirra beggja koma aftur á yfirborðið.

Viðreisn og Samfylking munu koma Íslandi inn í Evrópusambandið, ef við gefum þeim tækifæri til, og ef við förum inn þá komumst við aldrei út.

Höfundur er formaður Heimdallar og skipar 7. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×