Þessu greinir hann frá í færslu á Facebook-síðu sinni. Einar sá sig knúinn til að tjá sig um orðróm varðandi afsteypu eftir umræðu Ólafar Skaftadóttur og Kristínar Gunnarsdóttur í hlaðvarpsþættinum Komið gott sem þær halda úti. Þar ræddu þær fjölmörg skilaboð sem þeim hafði borist þess efnis að Einar hygðist reisa brjóstmynd af sjálfum sér í ráðhúsinu.
„Endurgjöf um afsteypu. Nú rignir yfir mig fyrirspurnum vegna fullyrðinga fréttastofu „Komið gott“ um að ég hafi látið gera brjóstmynd úr bronsi af sjálfum mér í Ráðhúsi Reykjavíkur – og það á kostnað skattgreiðenda. Í stuttu máli þá hefur það aldrei komið til tals hvað þá til framkvæmdar. Síðasta styttan var gerð á tímum Davíðs Oddssonar en síðan var sú hefð aflögð,“ segir Einar í færslu sinni.

Einar tekur fram í færslunni að hann sé dyggur hlustandi Komið gott og hrósar bæði Ólöfu og Kristínu fyrir kímni sína og hnyttni. Hann taki öllu sem þær segi með fyrirvara en tekur fram að rétt sé að „afsteypa þessa vitleysu“ fyrst að hann er búinn að fá spurningar um þetta mál héðan og þaðan.
„Kæru vinkonur. Fyrst ég er með ykkur taggaðar hérna í þessum status þá vil ég nefna að ég heyrði af áhyggjum ykkar yfir lýsingunni í Hljómskálagarðinum. Ég læt laga það. Hvet ykkur svo til að kíkja á Jólaþorpið á Austurvelli um helgina, það verður æðislega fínt. Svo væri mjög gaman að bjóða ykkur í heimsókn í Ráðhúsið til þess að skoða bronsstyttur fyrri tíma.“
