Innherji

Hluta­bréfa­verð Amaroq nálgast hæsta gildi eftir að gull­vinnsla hófst í Nalunaq

Hörður Ægisson skrifar
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, segir að framleiðsla á gulli í Nalunaq sé stór áfangi í vegferð félagsins, sér í lagi þar sem náman mun nú hefja tekjumyndun.
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, segir að framleiðsla á gulli í Nalunaq sé stór áfangi í vegferð félagsins, sér í lagi þar sem náman mun nú hefja tekjumyndun.

Auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals, sem er að meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur tilkynnt um að fyrsta framleiðsla og steypun á gulli hefur átt sér stað í Nalunaq-námu félagsins í Suður-Grænlandi. Fjárfestar brugðust vel við tíðindunum, sem eru í samræmi við útgefnar áætlanir félagsins, og hlutabréfaverðið hækkaði nokkuð í fyrstu viðskiptum í morgun.

Þriðjudaginn 26. nóvember síðastliðinn fékk Amaroq endanlegt leyfi frá stjórnvöldum í Grænlandi fyrir gangsetningu á 1. áfanga vinnslustöðvar félagsins, sem hefur síðan starfað á fullum afköstum, samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í Kauphöllina í morgun.

Fyrsta steypun á gulli varð í gær, miðvikudag, þar sem framleitt var 1,2 kílógramm af gulli, sem jafngildir um 39 svonefndum troy-únsum, eftir að vinnsla hafði staðið yfir í um tíu klukkustundir. Verðið á gulli hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum og misserum og stendur núna í um 2.650 dölum á hverja únsu.

Hlutabréfaverð Amaroq hækkaði um tvö prósent í um átján milljóna veltu í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun og stendur núna í 150 krónum á hlut, rétt undir hæsta gildi frá því í marsmánuði á þessu ári. Markaðsvirði félagsins, sem er sömuleiðis skráð á markað í Kanada og Bretlandi, er 55 milljarðar króna.

Að sögn félagsins mun það halda áfram að stilla af og besta framleiðsluferla í vinnslustöðinni í kjölfar gangsetningar og stefnir á vikulega steypun á gulli. Verðmætasta eign Amaroq er Nalunaq-námusvæðið en sjóðstreymið sem verður til með gullvinnslunni þar á að nýtast til að standa straum af námugreftri og vinnslu á öðrum mögulegum málmum á þeim svæðum sem félagið er með leyfi til leitar.

Eftir því sem náman færist úr fjárfestingarfasa yfir í rekstur munu áherslur okkar snúa að því að auka við gullmagn og þar með líftíma námunnar.

Amaroq heldur á níu leitar- og vinnsluleyfum á svæði sem nær yfir um 9.800 ferkílómetra á Suður-Grænlandi sem er talið innihalda auðsækjanlega málma.

Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, segir áfangann að hefja gullvinnslu á þeim tíma sem félagið hafði gefið út – á fjórða ársfjórðungi 2024 – vera mikið afrek fyrir félagið og samstarfsaðila þess, að því er haft er eftir honum í tilkynningu. Hann þakkar starfsfólki sínu og teyminu á staðnum sem hafi unnið sleitulaust við uppbyggingu og nú gangsetningu.

„Fyrsta framleiðsla á gulli í Nalunaq er stór áfangi í okkar vegferð, sér í lagi þar sem náman mun nú hefja tekjumyndun. Eftir því sem náman færist úr fjárfestingarfasa yfir í rekstur munu áherslur okkar snúa að því að auka við gullmagn og þar með líftíma námunnar, sem og áframhaldandi rannsóknir til að raungera enn frekar virði eignasafns okkar í Grænlandi.“

Í kauphallartilkynningunni kemur jafnframt fram að áætlað sé að ljúka 2. áfanga vinnslustöðvarinnar, uppsetningu á flotrás, á öðrum ársfjórðungi 2025. Félagið stefnir á að auka framleiðslu upp í stöðug, full afköst á 4. ársfjórðungi 2025, þar sem unnin verða 260 til 300 tonn á dag af efni með áætluðum 12 til 16 grömm á hvert tonn af gullstyrkleika.

Þá mun Amaroq birta uppfært auðlindamat fyrir Nalunaq-svæðið á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Íslenskir fjárfestar – verðbréfasjóðir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og einkafjárfestar – eiga samanlagt yfir helmingshlut í Amaroq eftir að hafa stækkað nokkuð hlut sinn í félaginu á undanförnum mánuðum og misserum. Stærstu lífeyrissjóðirnir í hluthafahópnum eru Gildi og LSR, hvor um sig með ríflega fjögurra prósenta hlut.

Stærstu erlendur fjárfestarnir eru hins vegar fjárfestingarsjóðirnir JLE Property, First Pecos, Livermore Partners ásamt þjóðarsjóðum Grænlands og Danmerkur og stærsta lífeyrissjóði Grænlands.


Tengdar fréttir

Hækk­ar verð­mat Amar­oq sem er 38 prós­ent yfir mark­aðs­verð­i

Bandaríska fjármálafyrirtækið Stifel hefur hækkað markgengi sitt á auðlindafyrirtækinu Amaroq Minerals um tólf prósent frá því í febrúar. Meðal annars er bent að verð á gulli hafi hækkað um 15 prósent og að styttra sé að í að fyrirtækið fari að afla tekna. Í verðmatinu er gert ráð fyrir að það hagnist um tvo milljarða á næsta ári en fyrirtækið afli ekki tekna í ár.

Ís­lenskir líf­eyris­sjóðir um­svifa­miklir í tæplega átta milljarða út­boði Amaroq

Mikill fjöldi helstu íslensku lífeyrissjóðanna kemur að kaupum á stórum hluta þess nýja hlutafé upp á samtals um 7,6 milljarða króna sem Amaroq Minerals hefur sótt sér í gegnum hlutafjárútboð en fyrir voru aðeins tveir lífeyrissjóðir í eigendahópi málmleitarfyrirtækisins. Söluandvirði útboðsins, sem var stækkað vegna rúmlega tvöfaldrar umframeftirspurnar, verður meðal annars nýtt til að hraða áformaðri gullvinnslu við Nalunaq-námu félagsins í Suður-Grænlandi síðar á þessu ári.

Metur Amaroq á 36 milljarða og segir fé­lagið vera í „ein­stakri stöðu“

Auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals, sem mun flytjast yfir á Aðalmarkað í Kauphöllinni hér á landi síðar í vikunni, er sagt vera í „einstaklegra sterkri stöðu“ vegna þeirra fjölmörgu fágætismálma sem það hefur aðgang að til námugraftar og vinnslu í Grænlandi. Samkvæmt nýlegri greiningu bresks fjárfestingabanka er Amaroq verðmetið á jafnvirði liðlega 36 milljarða króna en félagið áformar að vera tilbúið til að hefja gullvinnslu á síðari hluta ársins 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×