Erlent

Segja að endur­taka verði kosningarnar um­deildu í Georgíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi með georgíska fánann og fána Evrópusambandsins sveipaðan um sig andspænis hópi lögreglumanna við georgíska þinghúsið í Tíblisi. Stjórnarandstaðan hefur mótmælt kosningaúrslitunum undanfarnar vikur.
Mótmælandi með georgíska fánann og fána Evrópusambandsins sveipaðan um sig andspænis hópi lögreglumanna við georgíska þinghúsið í Tíblisi. Stjórnarandstaðan hefur mótmælt kosningaúrslitunum undanfarnar vikur. Vísir/EPA

Þingkosningarnar sem fóru fram í Georgíu í haust fóru ekki heiðarlega fram og þær ætti að endurtaka, að mati Evrópuþingsins. Það kallar ennfremur eftir refsiaðgerðum gegn leiðtogum stjórnarflokksins Georgíska draumsins.

Margvíslegar athugasemdir hafa komið fram um þingkosningarnar í Georgíu í síðasta mánuði. Georgíski draumurinn náði hreinum meirihluta samkvæmt opinberum tölum sem stjórnarandstaðan í landinu með forsetann fremstan í flokki dregur í efa. Ásakanir eru uppi um atkvæðakaup, kosningasvik og þrýsting á kjósendur.

Afgerandi meirihluti Evrópuþingsins samþykkti ályktun í dag um að opinber úrslit kosninganna endurspegluðu ekki vilja georgísku þjóðarinnar og að halda bæri kosningarnar aftur innan árs undir alþjóðlegu eftirliti. Þá kallaði þingheimur eftir refsiaðgerðum gegn leiðtogum Georgíska draumsins sem bæru ábyrgð á hnignun lýðræðis í landinu.

Maka Bochorisvhivli, utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Georgíska draumsins, sagði ályktun Evrópuþingsins byggjast á „ónákvæmum upplýsingum“, að því er kemur fram í frétt Politico. Georgía stefndi enn að Evrópusambandsaðild.

Georgía hafði stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu en sambandið frysti umsókn landsins eftir að Georgíski draumurinn samþykkti lög sem þrengja verulega að frjálsum félagasamtökum og fjölmiðlum fyrr á þessu ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×