Innlent

Æfing lög­reglu og fíkni­efna­mál ollu mis­skilningi

Árni Sæberg skrifar
Stjórnsýsluhús Ísafjarðar hýsir meðal annars lögregluna í bænum.
Stjórnsýsluhús Ísafjarðar hýsir meðal annars lögregluna í bænum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Vestfjörðum var við valdbeitingaræfingar við Stjórnsýsluhús Ísafjarðar á miðvikudag, sama dag og fíkniefnamál kom upp í bænum. Misskilningur milli blaðamanns og lögreglustjóra varð til þess að sá síðarnefndi neitaði að tjá sig um æfinguna.

Mbl.is greindi frá fjölmennri lögregluaðgerð við Stjórn­sýslu­hús Ísa­fjarðar á miðvikudag en húsið hýsir hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki. Mbl.is hafði eftir Helga Jenssyni, lögreglustjóranum á Vestfjörðum, að hann gæti ekki tjáð sig um málið og von væri á tilkynningu vegna þess.

Vísi barst ábending um að á miðvikudag hafi verið haldin æfing hjá lögreglunni á Ísafirði. Hún er til húsa í stjórnsýsluhúsinu. Helgi staðfestir í samtali við Vísi að um valdbeitingaræfingu hafi verið að ræða í og við stjórnsýsluhúsið, engin eiginleg aðgerð hafi farið fram þar.

Aftur á móti hafi sama dag komið upp fíkniefnamál í umdæminu, sem ekki sé tímabært að upplýsa um að svo stöddu en von sé á tilkynningu vegna. Hann hafi haldið að blaðamaður Mbl.is hafi verið að vísa til þess máls og því ekki tjáð sig um æfinguna við stjórnsýsluhúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×