Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson og Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifa

Í kröfugerð til stjórnvalda um breytingar sem gera þarf á Kvennaári 2025 segir m.a. að veita þurfi lögreglunni rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni og brot á því skuli hafa afleiðingar. Krafan er tilkomin vegna þess að reynsla sérfræðinga og samtaka sem starfa með þolendum ofbeldis í nánu sambandi sýnir að gera þarf meira til að tryggja öryggi þeirra.

Að minnsta kosti 40% kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Fatlaðar konur, konur af erlendum uppruna og trans konur eru enn líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrir hópar. Um helmingur allra ofbeldisbrota sem koma til lögreglu árlega tengjast heimilisofbeldi þar sem gerendur eru í miklum meirihluta karlar. Það sýnir okkur að einn hættulegasti staðurinn fyrir konur er þeirra eigið heimili.

Birtingarmyndir ofbeldis

Birtingarmyndir ofbeldis eru fjölmargar og hafa verður í huga að heimilisofbeldi er ekki alltaf líkamlegt. Nauðungarstjórnun er dæmi um hegðun eða hegðunarmynstur sem hefur það að markmiði að skaða, refsa eða hræða þolanda. Í þessu geta falist árásir, hótanir, niðurlæging eða ógnanir. Eitt algengt dæmi nauðungarstjórnunar er þegar gerandi talar stöðugt niður til þolanda eins og til dæmis með því að segja þolanda einskis virði.

Nauðungarstjórnun lýsir sér enn fremur í því þegar maki, eða fyrrverandi maki, tekur sér stjórn á lífi annarrar manneskju. Þetta getur t.d. verið að reyna að einangra viðkomandi frá vinum og fjölskyldu, vita hvar þolandi er öllum stundum og fylgjast með í gegnum staðsetningarbúnað á síma eða álíka. Hún felst og í að stjórna því hvert þolandi fer, hvort viðkomandi hafi aðgang að sameiginlegum eða jafnvel eigin peningum, samfélagsmiðlum, klæðaburði, hvort, hvenær og hvað viðkomandi fái að borða, hvort hann fái að sofa, koma í veg fyrir að þolandi geti sótt læknisþjónustu eða taki lyf eða önnur atriði sem eðlilegt er að frjáls manneskja hafi forræði yfir sjálf eða sjálfur. Þetta lýsir í raun ástandi þar sem viðkomandi er gísl í eigin lífi. Ofbeldið getur verið líkamlegt, kynferðislegt og/eða andlegt.

Nauðungarstjórnun er stórt rautt flagg. Það er sá þáttur sem getur hvað best spáð fyrir um að alvarlegt ofbeldi eða mannráp geti átt sér stað. Þess vegna er nauðungarstjórnun lögbrot í Bretlandi ásamt kyrkingartaki. Ástæðan fyrir því að kyrkingartak telst sjálfstætt brot er að rannsóknir sýna að sé því beitt, sjöfaldi það líkur á að viðkomandi fremji morði síðar. Til að fylgja lögunum eftir hefur verið gripið til herferða, rannsókna og fjölbreyttrar vitundarvakningar. Rúmlega 20% þeirra sem sóttu ráðgjafaviðtal í Kvennaathvarfinu árið 2023 segjast hafa verið teknar kyrkingartaki, orðið fyrir eltihrelli og/eða fengið morðhótun.

Eltihrelli og nálgunarbann

Jane Monckton-Smith er breskur afbrotafræðingur sem hefur sérhæft sig í kvennamorðum. Hún hefur búið til fræðilegan ramma um tímalínu ofbeldis í nánum samböndum þannig að meta megi áhættuna á manndrápi í málum þar sem nauðungastjórnun er beitt eða eltihrelli. Þetta verkfæri, sem ber heitið Átta stiga tímalína í manndrápsmálum í nánu sambandi, auðveldar að bera kennsl á ofbeldi, fyrirbyggja frekara ofbeldi, vinna gegn því að ofbeldissamband nái að þróast og fyrirbyggja morð.

Eitt stig tímalínunnar er þegar þolandi er beittur eltihrelli, þ.e. þegar gerandi hótar, eltir, fylgist með eða ofsækir einstakling á einhvern hátt. Þarna eru konur í miklum meirihluta þolenda. Algengast er að gerandi sé fyrrverandi maki eða barnsfaðir. Með því að þekkja helstu einkennin aukast líkur á að rjúfa megi vítahringinn áður en eitthvað verra gerist.

Ofbeldi stigmagnast gjarnan þegar konur sem búa við það vilja slíta sambandinu við gerandann. Nærri helmingur þeirra sem leitaði til Kvennaathvarfsins árið 2023 óttaðist um líf sitt og 44% höfðu hlotið líkamlega áverka. Engu að síður höfðu eingöngu 5% þeirra fengið nálgunarbann á geranda sinn og 3% neyðarhnapp. Aukning er þó í brottvísunum ofbeldismanna af heimili, en það fór úr 2% í 6% milli ára. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra bárust 97 beiðnir um nálgunarbann árið 2023 en ekki liggja fyrir tölur um hve margar þeirra voru staðfestar af dómstólum né liggur fyrir tölfræði um brottvísun af heimili.

Aukum öryggi þolenda ofbeldis í nánu sambandi

Flest sem þekkja til benda á að erfitt geti verið að fá nálgunarbann vegna ofbeldis í nánu sambandi. Í þeim aðstæðum þekkir gerandi þolandann, veit hvar þolandi vinnur og daglega rútínu og því hægt að beita eltihrelli á lúmskan hátt sem erfitt er að setja fingur á. Enn fremur sé flóknara að fá nálgunarbann þegar takmörkuð skráð saga er til um andlegt ofbeldi eða annað ofbeldi sem erfiðara er að sýna fram á.

Þegar nálgunarbann hinsvegar fæst, skortir skilvirkni til að bregðast við ef gerandi brýtur gegn því. Ef brotið er gegn nálgunarbanni, með þeim hætti að það geti varðað við lög, fer það í hefðbundinn farveg rannsóknar hjá lögreglu, með mögulegri ákæru og dómi. Ríkissaksóknari hefur gefið út fyrirmæli um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að slík mál eigi að fá flýtimeðferð. Ef gerandi fær dóm og brýtur aftur af sér þá eru uppfyllt skilyrði til að setja hann í gæsluvarðhald. Þrátt fyrir flýtimeðferð getur þetta ferli tekið nokkrar vikur.

Ríkissaksóknari hefur einnig gefið út þau fyrirmæli til ákærenda að þegar einstaklingur hefur ítrekað brotið gegn nálgunarbanni sé rétt að gera kröfu um að hann beri ökklaband til að hægt sé að fylgjast með ferðum hans. Þrátt fyrir fyrirmælin hefur þetta úrræði lítið sem ekkert verið notað þar sem ekki liggi fyrir hver eigi að kaupa ökklaböndin, vakta viðkomandi eða fylgja málum eftir. Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð getur geranda verið gert að ganga um með ökklaband eða sæta rafrænu eftirliti og sé nálgunarbannið brotið varðar það fjársektum eða fangelsi. Sé fyrsta brotið alvarlegt þarf ekki að uppfylla skilyrði um endurtekið brot til að geranda sé gert að ganga með ökklaband.

Það er því skýr krafa Kvennaárs að minnka eigi frelsi ofbeldisfólks til að eltihrella eða ógna öryggi annarra, með því að beita nálgunarbanni oftar. Það þarf að leiða í lög að kyrkingartak og nauðungastjórnun feli í sér sjálfstæð brot, tryggja að það hafi umsvifalaust áhrif á ofbeldisfólk ef það brýtur nálgunarbann, til dæmis með notkun ökklabands, rafræns eftirlits og háum fjársektum.

Með því að minnka frelsi ofbeldisfólks er verið að tryggja frelsi brotaþola, sem í miklum meirihluta eru konur og börn. Þannig er þeim tryggð þau sjálfsögðu réttindi að geta búið við frið og öryggi og þurfa ekki að rífa sig upp með rótum til að búa í athvarfi eða flytja af heimilinu.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB og Fjölnir Sæmundsson 1. varaformaður BSRB og lögreglumaður.

Greinin er birt í tengslum við alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×