Handbolti

Eyja­menn minnast Kol­beins í dag með því að drekka Kollabjórinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Aron Ingibjargarson varð bráðkvaddur á heimili sínu fyrir sex árum síðan.
Kolbeinn Aron Ingibjargarson varð bráðkvaddur á heimili sínu fyrir sex árum síðan. ÍBV Handbolti

Í dag hefði Eyjamaðurinn Kolbeinn Aron Ingibjargarson orðið 35 ára gamall. Eyjamenn minnast hans sérstaklega á heimaleik sínum við Valsmenn í Olís deild karla í handbolta.

„Kolbeinn Aron Ingibjargarson, eða Kolli eins og við kölluðum hann, var öflugur markvörður og litríkur karakter sem átti stóran þátt í vexti og velgengni handboltans í Vestmannaeyjum,“ segir í frétt um daginn á miðlum ÍBV.

Kolbeinn var búinn að spila 279 leiki fyrir ÍBV þegar hann kvaddi allt of snemma árið 2018. Kolbeinn varð þá bráðkvaddur á heimili sínu. Flest fólk í Eyjum fékk fréttirnar á aðfangadag og þær settu mikinn svip á jólahald í Vestmannaeyjum enda var Kolbeinn vinur allra.

Í tilefni afmælisins ákvað fjölskylda Kolla að láta útbúa sérstakan afmælisbjór sem þau gáfu handknattleiksdeild ÍBV og óskuðu eftir að bjórinn yrði seldur í upphitun fyrir leik ÍBV og Vals.

Eyjamenn vonast eftir góðri mætingu á þennan stórleik enda er ein besta leiðin til að minnast stuðboltans að vera með með stuð á pöllunum á móti einum af erkifjendum liðsins síðustu ár.

„Upphitun hefst í gamla salnum klukkan 15.00 þar sem Kollabjórinn verður til sölu ásamt pizzu frá Pizza 67. Þar ætlum við að eiga saman góða stund, ylja okkur við minningar um góðan dreng og hita upp fyrir leikinn. Mætum í hvítu og hlökkum til að sjá sem allra flesta,“ segir í frétt um daginn á miðlum ÍBV.

ÍBV er í sjötta sæti deildarinnar en hefur tapað tveimur leikjum í röð. Valsmenn komast upp i annað sætið með sigri en Valsliðið hefur ekki tapað deildarleik síðan í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×