Fótbolti

Júlíus og Sveinn Aron skoruðu í lokaumferðinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveinn Aron tryggði Sarpsborg dramatískan sigur í lokaumferðinni.
Sveinn Aron tryggði Sarpsborg dramatískan sigur í lokaumferðinni. Sarpsborg 08

Lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta fór fram í dag þegar átta leikir fóru fram á sama tíma. Íslendingar voru í eldlínunni í sex þeirra.

Sveinn Aron Guðjohnsen tryggði Sarpsborg 08 dramatískan 2-1 sigur gegn Tromso með marki af vítapunktinum á annarri mínútu uppbótartíma. Sveinn Aron kom inn af bekknum á 73. mínútu og tryggði liðinu sigurinn, en Sarpsborg endar þar með í níunda sæti deildarinnar með 37 stig.

Þá skoraði Júlíus Magnússon eina mark leiksins er Fredrikstad vann 0-1 sigur gegn Stefáni Inga Sigurðarsyni og félögum í Sandefjord. Sigurinn gulltryggði sjötta sæti deildarinnar fyrir Fredrikstad, en Sandefjord endar í tíunda sæti.

Að lokum var Logi Tómasson í byrjunarliði Stromsgodset sem vann 1-0 sigur gegn Molde, Anton Lúðvíksson lék 82 mínútur fyrir Haugesund er liðið vann 2-1 sigur gegn Odd, Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Ari Jónsson hófu báðir leik fyrir HamKam í 0-2 tapi gegn KFUM Oslo og Hilmir Mikaelsson og félagar í Kristiansund fengu 0-4 skell gegn Rosenborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×