Sport

Katrín Tanja hætt: „Frá dýpstu hjarta­rótum, takk fyrir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir, hraustasta kona heims 2015 og 2016.
Katrín Tanja Davíðsdóttir, hraustasta kona heims 2015 og 2016.

Tvöfaldi heimsmeistarinn í CrossFit, Katrín Tanja Davíðsdóttir, er hætt að keppa. Hún greindi frá þessari ákvörðun sinni á samfélagsmiðlum.

„Frá dýpstu hjartarótum, takk fyrir.“ Þannig hefst færsla Katrínar Tönju þar sem hún greinir frá því að hún sé hætt að keppa í CrossFit.

„Fólkið mitt er lífið mitt. Fjölskyldan mín, þjálfarar, bestu vinir (sem hafa breyst í fjölskyldu), samherjar og öll ykkar sem hafa stutt mig svo ótrúlega vel hafa gert þennan kafla lífsins að þeim sem hefur veitt mér mesta ánægju,“ skrifaði Katrín Tanja einnig.

Hún hefur keppt í CrossFit undanfarin þrettán ár. Hún keppti tíu sinnum á heimsleikunum í CrossFit og varð heimsmeistari 2015 og 2016. Katrín Tanja lenti í 3. sæti 2018 og því fjórða árið eftir.

Katrín Tanja birti tilfinningaþrungið myndband með færslunni þar sem hún tilkynnti að hún væri hætt en þar má sjá svipmyndir frá ferli hennar. Í lokaorðum færslunnar segist Katrín Tanja hlakka til framhaldsins.

„Þegar þessi hluti lífs míns endar get ég ekki annað en horft til baka með gleði í hjarta og miklu þakklæti. Og þar sem einar dyr lokast opnast fyrir mig veröld nýrra möguleika og ég trúi því að það besta sé handan við hornið,“ skrifaði Katrín Tanja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×